Nýjustu fréttir af starfi félagsins

Dansleikur felldur niður

Dansleikurinn sem vera átti sunnudaginn 9. ágúst fellur niður vegna hertra COVID reglna.
Vonandi birtir til næstu daga, þannig að hægt verði að halda áfram að dansa þar sem frá var horfið.
06/08/2020|

FEB ferðum frestað

Vegna hertra COVID reglna þurfum við því miður að fresta  ferðunum um Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík sem fara átti þann 6. ágúst og  um Sprengisand í Fjörður, Flateyjardal og Tröllaskaga sem fara átti dagana 9.-12. ágúst.

Ef ástandið batnar á næstunni stefnum við á að fara þessar ferðir seinna í ágúst.  Við munum vera í sambandi beint við alla þá sem skráðir eru í ferðirnar, þegar málin skýrast betur.

Hlýjar kveðjur til ykkar allra

05/08/2020|

Spennandi FEB ferðir – Nú fer hver að verða síðastur að bóka

Nú styttist óðum í eftirfarandi ferðir:

Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík, þann 6. ágúst. – FRESTAÐ
Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri. Um er að ræða ferð með viðkomu í Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, ekið inn í Landamannalaugar og farið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjóli svo eitthvað sé nefnt. Síðan verður ekið niður Skaftártungur og til Hótel Dyrhólaey, þar sem kvöldmatur ,sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Brottför frá Stangarhyl 4, klukkan 8:30 þann 6. ágúst.
Verð kr. 18.500 fyrir félagsmenn en 19.500 fyrir utanfélagsmenn.

Leiðsögumaður: Kári Jónasson

 

Ferð um Sprengisand í Fjörður, Flateyjardal og Tröllaskaga. 9.-12. ágúst – FRESTAÐ
Þessi ferð fyllist alltaf fljótt!
Fjögra daga viðburðarík ferð þar sem gist verður þrjár nætur á  Hótel Eddu, Akureyri.  Brottför er kl. 8:00 frá Stangarhyl 4, þann 9. ágúst og er ekið í rútu allan tímann, nema farið á fjallabílum yfir í Fjörður. Fyrsta daginn er ekið um Sprengisand til Akureyrar. Á öðrum degi er ekið norður Flateyjardalsheiði allt út á Flateyjardal. Á þriðja degi er haldið út í Fjörður um Leirdalsheiði á vel útbúnum fjallabílum. Á fjórða og síðasta degi er ekið aftur til Reykjavíkur en um Eyjafjörð að vestan, gegnum Dalvík og Ólafsfjörð, stoppað verður á Siglufirði. Ekið suður á ný um Þverárfjall og þjóðveg 1.
Verð kr. 90.000 í tvíbýli og kr. 95.000 í einbýli (5.000 kr. álag fyrir utanfélagsmenn)

Leiðsögumaður: Gísli Jónatansson

 

Hvetjum ykkur til koma með.

Tekið er á móti bókunum í síma 5882111 eða með því að senda okkur póst á feb@feb.is, eða heilsa upp á okkur á skrifstofu FEB að Stangarhyl 4.

Hlökkum til að heyra frá ykkur – Það fyllist fljótt

 

03/07/2020|

Nú duga ekki lengur orðin tóm

Eftirfarandi tvær ályktanir voru samþykktar á aðalfundi FEB árið 2020

Aðalfundarályktun 1:

Nú duga ekki lengur orðin tóm
Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfr miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfrlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um. Á tímabilinu 2010-2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessa tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þús. kr. á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerf markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öfun viðbótartekna. Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.
Aðalfundur FEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hefja vinnu við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhófegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.

Aðalfundarályktun 2:

Málsókn gegn ríkinu eina úrræðið
Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfr fullum stuðningi við málsókn Gráa hersins gegn stjórnvöldum og hvetur eftirlaunafólk að fylkja sér á bak við hana. Tilgangur málsóknarinnar er að fá úr því skorið hvort skerðing almannatrygginga standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Eftirlaunafólk hefur ekki yfr að ráða neinum þvingunarúrræðum til að knýja á úrlausn mála sinna gagnvart stjórnvöldum. Málsókn gegn ríkinu er því aðferð sem eftirlaunafólk neyðist nú til að grípa til, þar sem ekki virðast vera líkur á að aðrar og hefðbundnari aðferðir muni bera árangur.
Fundurinn fagnar mjög þeirri ákvörðun stjórnar VR að gerast fjárhagslegur bakhjarl Málsóknarsjóðs Gráa hersins, og tryggja með því að mögulegt verður að reka málið fyrir öllum dómsstigum þar til lokaniðurstaða fæst.

21/06/2020|

Ingibjörg H. Sverrisdóttir nýr formaður FEB

Ingibjörg H. Sverrisdóttir var kosin nýr formaður félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni  í dag 16. júni. Þrír voru í framboði til formanns og eru úrslitin eftirfarandi:

 • Ingibjörg H. Sverrisdóttir hlaut 262 atkvæði
 • Haukur Arnþórsson hlaut 131 atkvæði
 • Borgþór Kjærnested hlaut 29 atkvæði
 • Ógildir 1 atkvæði

Samtals kusu 423 í formannskjörinu.
Við óskum Ingibjörgu innilega til hamingju.

Á fundinum var einnig kosið í stjórn og varastjórn, samtals sjö menn

Til tveggja ára í aðalstjórn voru kjörnir:

 • Kári Jónasson með 313 atkvæði
 • Sigurbjörg Gísladóttir með 300 atkvæði
 • Viðar Eggertsson með 299 atkvæði
 • Ingibjörg Óskarsdóttir var kosin í aðalstjórn til eins árs með 295 atkvæðum

Þrír voru kosnir í varastjórn til eins árs en þeir eru:

 • Finnur Birgisson með 223 atkvæði
 • Haukur Arnþórsson með 184 atkvæði
 • Sverrir Örn Kaaber með 173 atkvæði

Er þeim öllum óskað velfarnaðar í starfi.

16/06/2020|

Dagskrá aðalfundar

Aðalfundur FEB árið 2020
Áður frestaður aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sem vera átti þann 12. mars, verður haldinn þriðjudaginn 16. júní kl. 14:00 í Súlnasal í Radisson BLU Saga Hotel.

 Dagskrá fundarins verður samkvæmt lögum félagsins:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Lögð fram skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári. Gerð grein fyrir úttekt Deloitte vegna byggingar Árskóga 1-3.
 3. Lagðir fram ársreikningar félagsins ásamt fjárhagsáætlun rekstrarársins.
 4. Kl.15.00 kosning formanns.
 5. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun.
 6. Lagabreytingar.
 7. Kl. 15.50 kosning aðal- og varamanna í stjórn og skoðunarmanna ársreikninga.
 8. Afgreiðsla tillagna og erinda sem lögð hafa verið fyrir fundinn.
 9. Ákvörðun um árgjald félagsmanna árið 2020.
 10. Afgreiðsla tillögu stjórnar um árgjald til Landssambands eldri borgara.
 11. Önnur mál.

Félagsmenn eru hvattir til að hafa með sér félagsskírteini.

Stjórn FEB – Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

11/06/2020|

Hefur þú áhuga á að vera fulltrúi FEB á landsfundi LEB?

Ágæti félagsmaður

Þann 30. júní n.k. mun Landssamband eldri borgara (LEB) halda landsfund. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur rétt á að senda 43 fulltrúa á þennan landsfund og að auki þurfa að vera til taks varamenn. Landsfundurinn verður haldinn í Súlnasal Hótel Sögu við Hagatorg og mun væntanlega standa frá kl. 10.00 – 18.00.

Áhugasamir félagsmenn FEB eru hvattir til þátttöku. Vinsamlegast vertu í sambandi við skrifstofu FEB, með því að hringja í síma 5882111, senda tölvupóst á feb@feb.is eða mæta á skrifstofuna, ef þú hefur áhuga. Eingöngu fulltrúar félaganna með gilt kjörbréf útgefnum af stjórnum sinna félaga, hafa rétt á setu á landsfundi LEB.

Við hlökkum til að heyra frá þér.

11/06/2020|

Á slóðir Agnesar og Friðriks – enn nokkur sæti laus.

Viljum vekja athygli á að enn eru nokkur sæti laus í ferðina okkar núna á sunnudaginn 14. júní þar sem við erum að fara á „Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi“. 
Um er að ræða tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Laugarbakka þar sem við verðum m.a. leidd í allan  sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks.
Leiðsögumaður er Kári Jónasson.

 

Einnig viljum við minna á ferðina okkar til Vestmannaeyja þann 20. júní – nokkur sæti laus
Dagsferð til Vestmannaeyja. M.a. farið út á Stórhöfa, í Herjólfsdal og í Eldheima
Leiðsögumenn Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.

10/06/2020|

Eldri fréttir >>

Samstarfsaðilar