Nýjustu fréttir af starfi félagsins

Dansleikir – gleðifréttir

Okkar geisivinsælu dansleikir hefjast aftur að nýju n.k. sunnudag 7. júní kl. 20:00 í Ásgarði, Stangarhyl 4. Svo áfram alla sunnudaga á sama tíma, með smá sumarfríi seinna í sumar.
Er ekki við hæfi að byrja aftur á sjálfan sjómannadaginn?

Mætum öll og dustum rykið af dansskónum.

02/06/2020|

FEB vorferðir í Reykjavík

Einu sinni í viku fram í júní, bjóðum við uppá áhugaverðar skoðunarferðir á höfuðborgarsvæðinu með leiðsögn. Ferðirnar eru félagsmönnum að kostnaðarlausu fyrir utan fargjald með ferju út í Viðey og ef til vill aðgangseyrir að safni/söfnum.
Því miður verður ekki hægt að mæta óskráður í ferðirnar þar sem við verðum að virða fjöldatakmarkanir sem eru nú 20 manns. Tekið er á móti skráningu í síma 588 2111
Vinsamlegast athugið að fyrsta ferðin er núna á fimmtudaginn 14. maí

14. maí   Laugarnesið
19. maí   Gengið um Kvosina
28. maí   Elliðaárdalur
 4. júní    Staðarskoðun í Viðey
11. júní    Hólavallagarður

Nánari upplýsingar eru á Facebook síðu félagsins

Hlökkum til að sjá ykkur

12/05/2020|

Fréttir af Göngu-Hrólfum

Alla miðvikudaga kl. 10 frá september til maí, hittist hópur af vösku göngufólki hér hjá okkur í Stangarhyl 4 og leggur í klukkutíma göngu. Hlé þurfti að gera á þessu síðustu vikur vegna COVID-19 ástandsins. Nú er hins vegar farið að birta til og næsta ganga verður héðan frá Stangarhylnum miðvikudaginn 13. maí. Göngu-Hrólfar er  opinn öllum félagsmönnum og við hvetjum fólk til að mæta því þetta eru hressandi göngur og frábær félagsskapur – sem jafnframt hlýðir Víði.

Á sumrin eru líka göngur en þær eru farnar frá ólíkum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dagskrá sumarsins er eftirfarandi:

Göngu – Hrólfar
Gönguferðir á miðvikudögum klukkan 10:00, áætlun fyrir júní, júlí og ágúst 2020

Lagt af stað frá:               

03.06.  Olís Rauðavatni – (Kaffistaður: Olís)

10.06.  Álafosskvos – (Kaffistaður: Bakaríið Mosfellsbæ)

17.06.  Maríuhellar Heiðmörk sunnan til – (Kaffistaður: Golfskálinn Oddur)

24.06.  Reynisvatn/heiði – (Kaffistaður: Golfskálinn Grafarholti)

01.07.  Víkingsheimilinu við Traðarland – (Kaffistaður: Bakaríið Austurveri)

08.07.  Korpúlfsstaðir – Mosfellsbær – (Kaffistaður: Bakaríið Mosfellsbæ

Strætó til baka leið 7

15.07.  Heimörk við Olís Rauðavatn – (Kaffistaður: Olís)

22.07.  Mógilsá Kollafirði – (Kaffistaður: Bakaríið Mosfellsbæ)

29.07.  Kaldársel Valahnúkar – (Kaffistaður: Golfskálinn Oddur)

05.08.  Hafravatn – (Kaffistaður: Golfskálinn Grafarholti)

12.08.  Grafarvogur Olís Gufunes – (Kaffistaður: Olís)

19.08.  Nauthóll Öskjuhlíð – (Kaffistaður: Bakaríið Austurveri)

26.08.  Seltjarnarnes við Bakkatjörn – (Kaffistaður: Golfskálinn Nes)

Upplýsingar veita Holger í síma 843 5327 og Marteinn í síma 846 2154

Verum virk og tökum þátt 

 

07/05/2020|

Leiðbeiningar frá Landlækni sem taka gildi 4. maí

Athygli er vakin á nýjustu leiðbeiningum frá Landlækni vegna viðkvæmra hópa sem taka gildi 4. maí.
Sjá nánar á slóðinni: https://www.landlaeknir.is/…/Leiðbeiningar_velferðarþjónust…

30/04/2020|

Mál Gráa hersins gegn íslenska ríkinu þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 

27.04.2020

Þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, hafa að beiðni og fyrir hönd samtakanna  höfðað mál á hendur Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins vegna skerðinga stofnunarinnar á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum. Málshöfðunin er reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna  í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka.

Þessar skerðingar nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði. Þegar einnig sé tekið tillit til tekjuskatta sé því um að ræða ígildi eignaupptöku á allt að 72,9% greiðslna frá lífeyrissjóðunum. Þetta sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins, og ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans, sem leggja bann við mismunun.

Í stefnunni er það rakið að kerfi skyldulífeyrissparnaðar, sem komið var á fót með kjarasamningum á árinu 1969, hafi verið ætlað að koma til viðbótar en ekki í stað almannatrygginga. Með núverandi skerðingum sé verulegur hluti þess ávinnings sem rekja má til lífeyrissjóðakerfisins hins vegar færður frá sjóðfélögum til ríkisins. Í stað þess að sjóðfélagar fái sjálfir notið lífeyrissparnaðar síns séu réttindi þeirra í lífeyrissjóðunum notuð til að draga úr útgjöldum ríkisins til almannatrygginga.

Bent er á að gerðar séu ríkar kröfur um að inngrip í eignarréttindi uppfylli þau skilyrði um lögmæti, réttmæti og meðalhóf sem leiða af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Íslenska ríkinu sé hinsvegar engin knýjandi nauðsyn á að skera niður útgjöld sín til lífeyris aldraðra með svo stórfelldum hætti, þar sem þau samsvari nú aðeins broti af því sem varið er til þessa málaflokks í nálægum löndum.

Hagsmunir einstaklinganna af því að fá að njóta ávaxtanna af lífeyrissparnaði sínum séu því mun ríkari en hagsmunir ríkissjóðs af því að skerða þessi réttindi. Þá bitni skerðingarnar á fámennum hópi ellífeyristaka auk þess sem lífeyristökum sé mismunað innbyrðis með ýmsum hætti.

Tryggingastofnun hefur verið birt stefna sem þingfest verður fyrir dómi 28. apríl nk. Gera má ráð fyrir því að rekstur málsins geti tekið um 2-3 ár.

Að baki málshöfðuninni stendur Málsóknarsjóður Gráa hersins sem sérstaklega hefur verið komið á fót til að fjármagna málareksturinn. MAGNA lögmenn munu flytja mál einstaklinganna þriggja fyrir dómi.
Sjá nánar á www.graiherinn.is

28/04/2020|

Ný og glæsileg afsláttarbók

Nú er afsláttarbókin 2020 komin út og er aðgengileg hér ofar á síðunni undir „Afsláttarbók“. Afsláttarbókin er einnig farin í póst eða er í dreifingu til þeirra félagsmanna sem greitt hafa félagsgjöldin 2020. Við erum afar þakklát þeim fyrirtækjum sem veita afslátt og hvetjum félagsmenn til að nýta sér þessi góðu kjör.

17/04/2020|

Starfslok Kristínar Lilju hjá FEB

Í dag var síðasti dagurinn hennar Kristínar Lilju hjá FEB. Nú ætlar hún að snúa sér að nýjum spennandi tækifærum sem “heldri manna ” árin hafa upp á að bjóða.

Við þökkum henni fyrir frábær störf á liðnum árum, hún hefur verið einstaklega farsæll starfsmaður og vel liðin. En nú er hún frjáls eins og fuglinn – en þarf reyndar að hlýða Víði um nokkurt skeið. Við óskum þér Kristín Lilja og fjölskyldu þinni velfarnaðar og gæfu um ókomna framtíð. Megir þú njóta komandi frelsis sem mest þú mátt

Stjórn og starfsmenn FEB

08/04/2020|

Hlökkum til sumarsins. FEB ferðir – þessar einu sönnu

Ferðir á vegum Félags eldri borgara sumarið 2020 – (Sjá nánari lýsingar undir „Ferðalög“ hér að ofan)

Söguferð: Dalir – Snæfellsnes, á áætlun 19. og 26. maí
Um er að ræða dagsferðir á söguslóðir Laxdælu í tengslum við Íslendingasagnanámskeiðið.
Fararstjórar Baldur Hafstað og Magnús Sædal.
Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi. 14.-15.júní
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Gauksmýri þar sem við verðum m.a. leidd í allan  sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks.
Leiðsögumaður er Kári Jónasson.
Vestmannaeyjar 20. júní
Dagsferð til Vestmannaeyja. M.a. farið út á Stórhöfa, í Herjólfsdal og í Eldheima
Leiðsögumenn Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík. dags. 6. ágúst.
Dagsferð með viðkomu í Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, í Landamannalaugum, og farið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjóli svo eitthvað sé nefnt.
Leiðsögumaður Kári Jónasson
Ferð um Sprengisand í Fjörðu, Flateyjardal og Tröllaskaga. 9.-12. ágúst
Fjögra daga ferð. Ekið um Sprengisand til Akureyrar, farið út á Flateyjardal, út í Fjörður um Leirdalsheiði og heim aftur um þjóðveg 1.
Leiðsögumaður Gísli Jónatansson
Suðurströnd og austur í Öræfi. 28. – 29. ágúst.
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Smyrlabjörgum. M.a. komið við hjá Skógarfossi þaðan í Vík yfir Mýrdalssand og í Öræfi. Farið að Fjallsárlóni og Jökulsárlóni og margt fleira.
Leiðsögumaður Kári Jónasson
Suðurland, Njáluslóðir 3. september
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu
Fararstjóri Guðni Ágústsson

Athugið : Félagið áskilur sér rétt til að fella niður einstakar ferðir vegna ónógrar þátttöku eða af öðrum ástæðum.

Sjá nánar undir ferðalög hér að ofan
Bókanir á feb@feb.is eða í síma 588 2111

18/03/2020|

Eldri fréttir >>

Samstarfsaðilar