Fréttir af starfi félagsins

Starfslok Kristínar Lilju hjá FEB

Í dag var síðasti dagurinn hennar Kristínar Lilju hjá FEB. Nú ætlar hún að snúa sér að nýjum spennandi tækifærum sem “heldri manna ” árin hafa upp á að bjóða.

Við þökkum henni fyrir frábær störf á liðnum árum, hún hefur verið einstaklega farsæll starfsmaður og vel liðin. En nú er hún frjáls eins og fuglinn – en þarf reyndar að hlýða Víði um nokkurt skeið. Við óskum þér Kristín Lilja og fjölskyldu þinni velfarnaðar og gæfu um ókomna framtíð. Megir þú njóta komandi frelsis sem mest þú mátt

Stjórn og starfsmenn FEB

08/04/2020|

Hlökkum til sumarsins. FEB ferðir – þessar einu sönnu

Ferðir á vegum Félags eldri borgara sumarið 2020 – (Sjá nánari lýsingar undir „Ferðalög“ hér að ofan)

Söguferð: Dalir – Snæfellsnes, á áætlun 19. og 26. maí
Um er að ræða dagsferðir á söguslóðir Laxdælu í tengslum við Íslendingasagnanámskeiðið.
Fararstjórar Baldur Hafstað og Magnús Sædal.
Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi. 14.-15.júní
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Gauksmýri þar sem við verðum m.a. leidd í allan  sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks.
Leiðsögumaður er Kári Jónasson.
Vestmannaeyjar 20. júní
Dagsferð til Vestmannaeyja. M.a. farið út á Stórhöfa, í Herjólfsdal og í Eldheima
Leiðsögumenn Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík. dags. 6. ágúst.
Dagsferð með viðkomu í Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, í Landamannalaugum, og farið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjóli svo eitthvað sé nefnt.
Leiðsögumaður Kári Jónasson
Ferð um Sprengisand í Fjörðu, Flateyjardal og Tröllaskaga. 9.-12. ágúst
Fjögra daga ferð. Ekið um Sprengisand til Akureyrar, farið út á Flateyjardal, út í Fjörður um Leirdalsheiði og heim aftur um þjóðveg 1.
Leiðsögumaður Gísli Jónatansson
Suðurströnd og austur í Öræfi. 28. – 29. ágúst.
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Smyrlabjörgum. M.a. komið við hjá Skógarfossi þaðan í Vík yfir Mýrdalssand og í Öræfi. Farið að Fjallsárlóni og Jökulsárlóni og margt fleira.
Leiðsögumaður Kári Jónasson
Suðurland, Njáluslóðir 3. september
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu
Fararstjóri Guðni Ágústsson

Athugið : Félagið áskilur sér rétt til að fella niður einstakar ferðir vegna ónógrar þátttöku eða af öðrum ástæðum.

Sjá nánar undir ferðalög hér að ofan
Bókanir á feb@feb.is eða í síma 588 2111

18/03/2020|

Góðar fréttir frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Kæri félagsmaður

Okkur var að berast eftirfarandi auglýsing frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar:

Eldri borgarar í Reykjavík athugið.  Hægt er að sækja um að fá fulleldaðan heimsendan mat hjá velferðarsviði. Máltíðirnar eru keyrðar heim að dyrum.  Sótt er um í síma 411 9450 eða á netfanginu; maturinnheim@reykjavik.is. Umsóknir þurfa að berast kl. 14:00 daginn áður.

Við fögnum þessu vel og sendum ykkur alúðarkveðjur

18/03/2020|

Upplýsingar um COVID-19 á Íslandi

Góð ráð og traustar upplýsingar á vef Landlæknis má nálgast hér: COVID.is

 

13/03/2020|

Hlýjar kveðjur og frestun viðburða hjá FEB

Kæri félagsmaður

Við sendum þér hlýjar kveðjur og vonum að þú hafir það sem allra best og farir vel með þig.  Okkur þykir leitt að tilkynna að ákveðið hefur verið að fresta öllum samkomum á vegum FEB um óákveðin tíma. Þetta er gert í ljósi þess að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þar er reyndar átt við viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanir  til landsins alls. En þar sem eldri borgarar og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er sérstakur hópur sem þarf að huga vel að, höfum við tekið þessa ákvörðun.

En sólin rís alltaf upp að nýju og saman komumst við í gegnum þetta. Skrifstofa FEB verður að sjálfsögðu opin áfram og við erum hér til að þjónusta þig í gegnum síma og með öðrum rafrænum hætti t.d. í gegnum heimasíðu félagsins www.feb.is, Facebook og með tölvupósti

Viljum líka minna á að með hækkandi sól eru margt spennandi framundan t.d. margar mjög áhugaverðar ferðir innanlands.  Þar er helst að nefna:

  • Söguferðir í tengslum við Íslendingasagna námskeiðin, í lok maí
  • Ferð á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþing um miðjan júní
  • Dagsferð til Vestmannaeyja þann 20. júní
  • Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík í byrjun ágúst

Og margar aðrar spennandi ferðir sem við munum upplýsa nánar um mjög fljótlega.

Með von um að þú hafir það sem allra best

F.h. FEB

Dýrleif, Jóhanna og Kristín

13/03/2020|

Aðalfundi FEB frestað

Á stjórnarfundi FEB mánudaginn 9. mars var ákveðið að fresta aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sem vera átti fimmtudaginn 12. mars um óákveðinn tíma þar sem Almannavarnir hafa uppfært hættustig upp í neyðarstig vegna COVID-19 veirunnar. Athygli hefur verið vakin á því að eldri borgarar og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sé sérstakur hópur sem þarf að huga vel að í þessu sambandi.  Því var ekki talið forsvaranlegt að halda aðalfund félagsins undir þessum kringumstæðum.

 

09/03/2020|

Ný námskeið frá 9 mars 2020

8-vikna Zumba Gold fyrir styttra komna kl. 9.20 til 10.20 á mánu- og fimmtudögum, verð 16.900 kr.

8-vikna Zumba Gold fyrir lengra komna kl. 10.30 til 11.30 á mánu- og fimmtudögum, verð 16.900 kr.

8-vikna STERK og LIÐUG námskeið kl. 11.30 til 12.15 á mánu- og fimmtudögum, verð 15.900 kr.

Skráning í síma 588-2111 eða á feb@feb.is.

Tanya frá Heilsuskóla Tanyu kennir Zumba Gold fyrir lengra komna og Zumba Gold sér-námskeið fyrir styttra komna í FEB í Stangarhyl 4, sem eru fyrir dömur og herra 60 ára og eldri.

Zumba Gold er dans og leikfimi sem notar svipaða uppbyggingu og Zumba Fitness, en breytir danssporunum og lækkar hraðann, sem hentar betur dönsurum sem eru 60 ára og eldri. Fólk getur tekið því rólega með Zumba Gold og skemmt sér konunglega í leiðinni. Fólk öðlast betri líkamsstöðu og meiri úthald. Tónlistin er jafn skemmtileg og í Zumba Fitness. Í Zumba Gold hjá Tönyu lærir fólk öll grunnsporin og samhæfingu í dansinum. Fólk lærir Salsa, Merengue, Reggaeton, Cumbia, Disco, magadans, Bollywood, Reggae, Cha-cha-cha og fl. Kerfin henta jafnt konum sem körlum.

Tanya kennir líka námskeið sem heitir Sterk og Liðug, sem hún hefur sjálf þróað frá grunni. Námskeiðið er ætlað dömum og herrum eldri en 60 ára, sem geta ekki lengur stundað hefðbundna líkamsrækt. Allir tímarnir eru sérsniðnir að þörfum þátttakenda. Þeir byrja á léttri upphitun og við tekur einföld leikfimi til að örva blóðrásina. Eftir það eru gerðar  léttar rólegar styrkjandi æfingar í því markmiði að rétta úr bakinu, bæta líkamsstöðu og minnka verki í baki, hnjám og mjöðmum. Í tímunum eru notaðir lítlir Pilates boltar, teygjur með handföngum og létt handlóð.

Í lok tímans fylgja árangursríkar teygjur á meðan líkaminn er ennþá heitur til að lengja vöðvana og vinna gegn gigtarverkjum. Þetta námskeið er sérsniðið fyrir fólk á besta aldri, sem er ungt í anda, en hefur ekki lengur líkamlega getu til að stunda hefðbundna líkamsrækt. Fólk getur ennþá stundað markvissa þjálfun án þess að ofreyna liðamótin. Allir þurfa á því að halda að hreyfa sig með hækkandi aldri til þess að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

27/02/2020|

Bókmennta hópur Jónínu 27 febrúar 2020

Bókmenntaklúbburinn hittist næst fimmtudaginn 27. feb., kl. 13:00 – 15:00.
Í þessum tíma verður rædd bókin Meðan nóttin líður  eftir Fríðu Á Sigurðardóttur.
Fjallað er um líf og sögu fimm kynslóða með afar skemmtilegri, sumum finnst flókinni, frásagnaraðferð. Þetta er bók sem gaman er að ræða.
Umræðum stýrir Jónína Guðmundsdóttir.

26/02/2020|

Enska- Ný sex vikna námskeið (kr. 15.000)

Ný sex vikna enskunámskeið hefjast þann 2. mars n.k. Námskeiðin verða haldin á mánudögum og miðvikudögum í  Stangarhyl 4 og er hægt að velja um eftirfarandi tíma.
Enska 1. kl. 10.30.
Enska 2. kl. 12.30. Nokkur sæti laus.
Enska 3. kl. 14.00. Bara talað mál. Nokkur sæti laus.

Síðasti tími er 8. apríl og kosta námskeiðin kr. 15.000
Kennari, Margrét Sölvadóttir

25/02/2020|

Kynningarfundur um lagabreytingar 20 feb. kl. 15.30 í Stangarhyl 4.

Fram eru komnar nokkrar tillögur að breytingum á lögum félagsins, og liggja þær frammi á skrifstofunni. Samkvæmt lögum félagsins ber að halda sérstakan kynningarfund um lagabreytingartillögur minnst tveimur vikum fyrir aðalfund og verður hann haldinn að Stangarhyl 4, fimmtudaginn 20. febrúar kl. 15:30.

17/02/2020|

Uppstillinganefnd FEB 2020 hefur lokið störfum.

Nefndinni bárust 16 framboð til stjórnar og 3 framboð til formanns, en 2 þeirra eru jafnframt í kjöri til stjórnar, nái þeir ekki kjöri til formanns.
Tillaga nefndarinnar er, að á aðalfundi FEB þann 12 mars 2020 fari fram kosning til stjórnar um öll sem í framboði eru.
 .
Fyrir í stjórn, kosnir 2019 til tveggja ára.
Ólafur Örn Ingólfsson
Róbert Bender
 .
Í framboð til Formanns:
Haukur Arnþórsson
Ingibjörg H. Sverrisdóttir
Borgþór Kjærnested
.
Í framboði til stjórnar:
Steinþór Ólafsson
Sverrir Örn Kaaber
Viðar Eggertsson
Borgþór Kjærnested
Finnur Birgisson
Geir A Guðsteinsson
Gísli Baldvinsson
Haukur Arnþórsson
Ingibjörg Óskarsdóttir
Jón Kristinn Cortes
Kári Jónasson
María Kristjánsdóttir
Sigrún Unnsteinsdóttir
Sigurbjörg Gísladóttir
Sigurður H. Einarsson
Steinar Harðarson
.
Jafnframt er vakin athygli á að í lögum félagsinn 10.4 stendur:
Tillögur félagsmanna um einstaka menn til stjórnarkjörs skulu berast uppstillingarnefnd eða skrifstofu félagsins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.
Reykjavík 13.02.2020
.
Fyrir hönd uppstillingarnefndar
Páll Halldórsson
13/02/2020|

Nýtt námskeið

Zumba Gold  – dans, leikfimi og teygjur fyrir byrjendur – nýr viðbótar hópur.
Nýtt 4-vikna námskeið hefst mánudaginn 10. febrúar og verður til og með 5. mars. Tímar tvisvar í viku kl. 9.20 til 10.20 á mánu- og fimmtudögum, kennari Tanya, verð 9.000 kr.
Skráning á feb@feb.is eða í síma 5882111. Stangarhyl 4

05/02/2020|

Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni verður haldinn fimmtudaginn 12. mars 2020, kl. 14:00 í Ásgarði, Stangarhyl 4, Reykjavík.

Dagskrá fundarins verður samkvæmt lögum félagsins sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Lögð fram skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári
3. Lagðir fram ársreikningar félagsins
4. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning
5. Lagabreytingar
6. Kosning formanns, aðal- og varamanna í stjórn og skoðunarmanna ársreikninga
7. Afgreiðsla tillagna og erinda
8. Ákvörðun um árgjald félagsmanna árið 2020
9. Afgreiðsla tillögu um árgjald til LEB
10. Önnur mál

Tillögur og erindi sem leggja á fyrir fundinn skulu hafa borist stjórn félagsinns skriflega minnst einni viku fyrir aðalfund.

Tillögur uppstillingarnefndar um fólk í stjórn munu liggja frammi á skrifstofu félagsins í fjórar vikur fyrir aðalfundinn, þ.e. frá og með 13. febrúar. Aðrar tillögur um einstaka menn til stjórnarkjörs skulu hafa borist uppstillingarnefnd eða skrifstofu félagsins fyrir 27. febrúar.

Fram eru komnar nokkrar tillögur að breytingum á lögum félagsins, og liggja þær frammi á skrifstofunni. Samkvæmt lögum félagsins ber að halda sérstakan kynningarfund um lagabreytingartillögur minnst tveimur vikum fyrir aðalfund og verður hann haldinn að Stangarhyl 4, fimmtudaginn 20. febrúar kl. 15:30.

Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

03/02/2020|

Aðalfundi félagsins frestað til 12.mars kl. 14.00

Aðalfundi félagsins er fresta frá áður auglýstum tíma til 12.mars 2020 kl.14.00
Nánar auglýst síðar.

29/01/2020|

Bókmenntaklúbbur FEB 2020

Bókmenntaklúbburinn hittist næst fimmtudaginn 30. janúar, kl. 13:00 – 15:00.
Í þessum tíma verður rædd bókin Í barndómi  eftir Jakobínu Sigurðardóttur.
Fjallað er um uppvaxtarár Jakobínu í Hælavík á Hornströndum á 2. og 3. áratug síðustu aldar. Þetta er minningabók um fólk og bæ fjarlægrar bernsku.
Umræðum stýrir Jónína Guðmundsdóttir.

28/01/2020|

Námskeið – Sterk og liðug. 8 vikur hefst 13. janúar.

Sterk og liðug er námskeið fyrir konur og karlmenn 60 ára og eldri. Tímarnir verða sérsniðnar að þátttakendum og þörfum þeirra. Við byrjum á léttri upphitun og og við tekur einföld leikfimi til að örva blóðrásina og auka liðleika. Eftir það gerum við rólegar styrkjandi æfingar með það sem markmið að rétta úr bakinu, bæta líkamsstöðu, minnka bakverki, verki í hnjám og mjöðmum. Í lok tímans gerum við árangursríkar teygjur á meðan líkaminn er ennþá heitur til að lengja vöðvana og vinna gegn gigtarverkjum. Þetta námskeið verður sérsniðið fyrir fólk á besta aldri, sem er ungt í anda, en hefur ekki lengur líkama til að stunda hefðbundna líkamsrækt. Þú getur ennþá stundað markvissa þjálfun án þess að ofreyna liðamótin. Við þurfum að halda áfram að hreyfa okkur með hækkandi aldri til þess að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

10/01/2020|

Íslendingasögunmámskeið 17.janúar.

ÍSLENDINGASÖGUR,  Námskeið um Eyrbyggja sögu hefst föstudaginn 17. Janúar  og stendur í tíu vikur, til 20. mars.
Kl. 13 -15 með kaffihléi og ef næg þátttaka fæst verður bætt við námskeiði kl. 10 -12 sömu daga.
Eyrbyggja, er kraftmikil saga um stórbrotna karla og konur, og nægir þar að nefna Snorra goða á Helgafelli og Þuríði hálfsystur hans á Fróða. Þarna er margt sem ræða þarf! Svo má minna á að sagan þolir vel annan lestur!
Ætlunin er síðan að fara dagsferð á söguslóðir næsta haust. (Í maí er fyrirhuguð ferð á slóðir Laxdælu í framhaldi af námskeiðinu sem nú er nýlokið.)
kr.18.000 fyrir félagsmenn og 19.000 kr. fyrir utanfélagsmenn.
Umsjónamaður sem fyrr Baldur Hafstað.
Skráning á feb@feb.is / síma 5882111.

09/01/2020|

Yfirlýsing frá FEB- félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um ferðamál.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur fengið fyrirspurnir frá félagsmönnum sínum vegna auglýsingar um Færeyjaferð frá nýstofnaðri Ferðaskrifstofu eldri borgara sem birtist um síðustu helgi.
FEB vill af þessu tilefni taka fram að þessi nýstofnaða ferðaskrifstofa er ekkert á vegum Félags eldri borgara i Reykjavík og nágrenni, er ekki í neinu samstarfi við FEB og félaginu að öllu leyti óviðkomandi.
Sem fyrr þá mun Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni efna til fjölbreyttra ferðalaga fyrir félagsmenn sína á nýbyrjuðu ári, bæði innanlands og utan. Þegar er búið að ákveða ferð til Pétursborgar í Rússlandi á vordögum, þegar allt verður í blóma þar eystra, og innan tíðar verður ferðaáætlun sumarsins kynnt.

08/01/2020|

Opnunartími félagsins um hátíðarnar.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni óskar félagsmönnum  og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla með  þökk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Skrifstofa félagsins verður lokuð á milli jóla og nýjárs. Opnum aftur annan janúar kl. 10.00

20/12/2019|

Rauða Menningarkortið 67+

Sunnudaginn 22. desember fá handhafar Rauða Menningarkortsins 67+ 25% afslátt af veitingum á Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum.

16/12/2019|