Viltu ekki taka þátt í skemmtilegri hreyfingu hjá FEB 😊

Minnum á hin geysivinsælu Zumba Gold námskeið og leikfimina Sterk og liðug sem byrja aftur strax eftir sumarfrí þ.e. þriðjudaginn 13. ágúst í sal FEB í Stangarhyl 4.

Leikfimin „Sterk og liðug“ gæti til dæmis verið svarið fyrir þig, þar sem tímarnir eru sérsniðnir að þörfum þátttakenda og ætluð þeim sem ekki geta stundað hefðbundna líkamsrækt. En ef þú treystir þér hins vegar í meiri hreyfingu þá er upplagt að skella sér í Zumba Gold, sem er dans og leikfimi sem notar svipaða uppbyggingu og Zumba Fitness, en með aðeins breyttum danssporum og lækkuðum hraða, sem hentar betur dönsurum sem eru 60 ára og eldri.

Ef þú átt erfitt með að koma þér í gang eftir stopp þá máttu vita að Tanya tekur einkar vel á móti þér – vertu því óhrædd/ur að „stökkva á vagninn“. Við bjóðum upp á 18 vikna námskeið en þeim lýkur 12. desember, en einnig er hægt að kaupa hálft námskeið þ.e. fyrstu 9 vikurnar eða seinni 9 vikurnar.

Skráning er hafin og hvetjum við alla til að skrá sig áður en skrifstofa FEB lokar vegna sumarleyfa dagana 22. júlí til og með 9. ágúst. Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is

Nánari upplýsingar um námskeiðin er hægt að finna hér á heimasíðu FEB undir: Félagsstarf og þar udnir Hreyfing.