Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) fagnar 35 ára afmæli í dag mánudaginn 15. mars. Það var árið 1986 sem framtakssamir aðilar riðu á vaðið og stofnuðu hagsmunafélag eldri borgara. Því var ætlað að gæta hagsmuna eldri borgara, skapa efnahagslegt öryggi, góða umönnun, hlúa að menningarlegum áhugamálum þeirra, stuðla að heilsueflingu og leitast við að hafa áhrif á lagasetningar og ákvarðanir sem varða hagsmuni aldraðra með viðræðum og samningum við stjórnvöld og stjórnmálaöfl. Félagið hefur einnig staðið að fjölda íbúðarbygginga fyrir félagsmenn sem hefur mætt óskum þeirra sem vilja sameinast í fjölbýli með 60 ára og eldri.
Stofnfélagar voru um 750, en félagsmönnum hefur fjölgað í um 13 þúsund í dag. Félagsmenn geta þeir orðið sem náð hafa 60 ára aldri.
Með bættri lýðheilsu hefur meðalaldur hækkað sem kallar á ýmsar breytingar í okkar hagsmunabaráttu sem og í okkar starfssemi. Með fjölgun félagsmanna þarf að mæta fjölbreyttari óskum um félagsstarf, félagslíf og afþreyingu. Tækifæri fólks eru orðin meiri við að uppfylla gamla drauma eins og t.d. að setjast á skólabekk, fara í hljómsveit, kór, stunda útivist eins og fjallgöngur, golf, skíði eða hjóla svo eitthvað sé nefnt. Fara í þau ferðalög innanlands sem utan sem lengi hefur staðið til að fara í. Félagið rekur í dag ferðaskrifstofu til að sinna þeim fjölbreyttu óskum félagsmanna um að komast í skipulagðar ferðir með sínum aldurshópi og býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða og klúbba.
Hið árlega blað félagsins, Félagstíðindi, ætti þessa dagana að vera að berast félagsmönnum; blað með ýmsum greinum og viðtölum sem og upplýsingum um FEB-ferðir sumarsins sem þegar er byrjað að bóka í. Blaðið er einnig hægt að finna hér á heimasíðu félagsins.
Á tímamótum sem þessum er gott að líta yfir farinn veg en fyrst og fremst að horfa til framtíðar. Á afmælisárinu eru mörg tækifæri sem við getum nýtt okkur því Alþingiskosningar eru á dagskrá í haust og undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2022 hefst á árinu.
Félagið vinnur náið með Landssambandi eldri borgara (LEB) ásamt rúmlega 50 öðrum félögum um land allt að sameiginlegum hagsmunamálum þar sem fjöldinn styrkir okkur sameinuð í baráttunni fyrir bættum hag í öllum málaflokkum. Ekki veitir af.
Ingibjörg Sverrisdóttir formaður