Pistill eftir Baldur Hafstað sem birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2022, tengist einni af hinum vinsælu FEB-ferðum okkar.
Grettir er sá fornkappi sem okkur er kærastur. Stórskáldin hafa ort um hann ódauðleg ljóð og lagt út af sögu hans. Og þessa stöku kvað Stephan G. Stephansson í tilefni af sundi útlagans úr Drangey:
Mörg er sagt að sigling glæst,
sjást frá Drangey mundi –
þó ber Grettis höfðuð hæst
úr hafi á Reykjasundi.
Sjálfur fór Stephan G. til fundar við Gretti í Drangey í Íslandsheimsókn sinni 1917. Og í maí sl. fór hópur á vegum Félags eldri borgara í Reykjavík í þriggja daga ferð á slóðir Grettis. Við komum að Bjargi í Miðfirði og spurðumst fyrir um höfuð kappans sem jarðsett var forðum við kirkjuna þar. Við fórum líka á þingstaðinn í Hegranesi og drukkum minni Grettis sem á Drangeyjarárunum kom þar í dulargervi og glímdi við tvo sterkustu bræður héraðsins, báða í einu.
Og á kvöldvöku á Sauðárkróki lásum við, gömlu pílagrímarnir, úr ljóðum snillinganna, m.a. Illugadrápu Stephans G. Stephanssonar og Í Grettisbúri Hannesar Péturssonar. Þá var einnig farið með kvæði Einars Benediktssonar, Grettisbæli , þar sem þessi eftirminnilega ljóðlína stendur: „að sekur er sá einn sem tapar.“
En áhrifamesti stansinn var gerður í Forsæludal þar sem Grettir tókst á við hinn ferlega draug sem hafði þá nálega eytt allri byggð í grenndinni. Hér minntumst við Matthíasar Jochumssonar sem árið 1897 gerði sér lítið fyrir og orti ljóðabálkinn Grettisljóð þar sem hann rakti helstu atriði Grettis sögu með sínu lagi. Farið var með nokkur erindi úr þessum mikla bálki. Gretti hafði tekist að hrinda Glámi „á bak aftur“, út úr bæjardyrunum á Þórhallsstöðum í Forsæludal; en sjálfur féll Grettir „á hann ofan“. Nú rak ský frá tunglinu, „en Glámur hvessti augun upp í móti“. Við þetta missti hetjan máttinn og gat ekki brugðið saxinu. Draugsa gafst þá ráðrúm til að biðja Gretti bölbæna sem með orðum séra Matthíasar hljóða svona – og geri aðrir guðsmenn betur!:
Rekast skaltu um reginfjöll,
reyna hvers kyns slysaföll;
flögð og árar elti þig,
ís og heljur svelti þig!
Þá skulu augun þessi mín
þegar sólar birtan dvín
feiknum öllum fylla þig,
fæla, kvelja og trylla þig!
Afturgöngur æri þig,
allt sem lifir særi þig,
allir bófar erti þig,
allir þjófar sverti þig!
Fögur sólin flýi þig,
ferleg nóttin vígi þig,
völu galdrar veiði þig,
vesöl kerling deyði þig!
Nú fyrst kom Grettir til sjálfs sín; brá saxinu „og hjó höfuð af Glámi og setti það við þjó honum“. En ræða Gláms varð að áhrínisorðum.
Séra Matthías sagði á öðrum stað í Grettisljóðum :
Þú ert Grettir, þjóðin mín,
þarna sá ég fylgjur þín:
þó að ljós þinn lýsi draum
losast muntu seint við Glaum! [Glaumur= Glámur]
Þessi vísa var rædd í hópnum okkar þarna í Forsæludal; og af henni æxlaðist síðan önnur vísa þar sem álíka langt er gengið í túlkun og hjá séra Matta:
Ég heyri rödd við hlustir mér
(heill og gæfa dvínar):
„Þú ert Grettir, en Glámur er:
gamlar syndir þínar.“
Höfundur: Baldur Hafstað, hafstad.baldur@gmail.com