Það gengur á ýmsu að því er varðar málefni eldri borgara. Ég held samt að stjórnvöld hafi toppað allar aðgerðir sínar, þegar fjárlög voru samþykkt í lok ársins.
Ferillinn er þessi:
Eins og við öll vitum, greiða Almannatryggingar ellilífeyri til eldri borgara. Þær voru hæstar 280 þús. kr. pr. mánuð á síðasta ári. Hækkanir á ellilífeyri eru í samræmi við neysluvísitölu samkvæmt lögum þar að lútandi.
Fyrir tveim árum þótti ljóst að ellilífeyrir væri of lágur og þar síðasta ríkisstjórn setti lög um að hækka ellilífeyri TR í áföngum, allt upp í 300 þú.s kr. pr. mánuð án tillits til neysluvísitölunnar. Lokahækkunin átti að eiga sér stað um áramótin núna.
Svo er stofnað til nýrrar ríkisstjórnar í desember og hvað gerist? Jú, staðið er við gildandi lög um 20 þús. kr. hækkunina, úr 280 þús. í 300 þús. kr. en með þeirri aðferð að fella hækkun neysluvísitölunnar (4,7%) inn í þá upphæð. Gefa með vinstri, til að taka með hægri.
Ríkisútgjöldin er notuð til að borga sig sjálf.
Þetta gerist á þeim tíma, þegar upplýst er um ákvarðanir kjararáðs um launahækkanir hjá margvíslegum stéttum og starfsmönnum, um tugi prósenta og afturvirkar til margra mánaða.
Samfélagið virðist hafa efni á að stórhækka kjör fólks hér og þar í kerfinu, en síðan er notuð sú aðferð hjá ríkinu, gagnvart eldri borgurum, að láta þá borga sína litlu hækkun með fé úr sínum eigin vasa. Og við erum ekki að tala um milljónir eða milljarða. Við erum að tala um fátækustu eldri borgarana, sem verða að lifa af greiðslum frá TR. Hverjar tuttugu þúsund krónur skipta þennan hóp miklu máli og þessi vinnubrögð eru fyrir neðan alla virðingu og réttlæti. Fólk, sem hefur ekki meira til framfærslu en hér hefur verið rakið, er fólkið, sem við skiljum eftir í svartnætti fátæktarinnar.
Höfundur er form. Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni