Starfsfólk FEB sendir félögum í FEB óskir um gleðilegt sumar.
Það eru mikil forréttindi að hafa verið kosinn formaður FEB. Um leið er ábyrgðin mikil. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir þann gríðarlega stuðning sem ég fékk á aðalfundi FEB.
Ég hef frá aðalfundi félagsins lagt mig fram um að kynna mér þau mál er snúa að félaginu en einnig að þeim baráttumálum er snúa að eldri borgurum. Af mörgu er að taka.
FEB er afar öflugt félag (16 þús. félagsmenn) þar sem kjaramálin eru efst á baugi. Þar er stjórn FEB í góðri samvinnu við LEB-samtökin varðandi kjaramálin.
Bæði stjórn FEB og LEB hafa lagt sig allan fram til að ná eyrum stjórnvalda en það hefur ekki enn a.m.k. náð miklum árangri. Á því verður að taka á með öllum þeim ráðum sem félög eldri borgara hafa yfir að ráða.
70 þús. atkvæði hljóta að skipta máli þegar kosningar verða á næsta ári.
Það er umhugsunarvert hví stjórnvöld komast upp með að hunsa flestar þær óskir sem lagðar hafa verið fram í þágu eldri borgara til betra lífs. Stjórnvöld viðhalda stöðugum skerðingum og hafa gert allt of lengi.
Síðustu samningar sem nefndir hafa verið „þjóðarsáttarsamningar“ eru gerðir án aðkomu eldri borgara. Það er sá hópur sem borið hefur uppi starfsemi stéttarfélaga með félagsgjöldum sínum. Án þeirra væru stéttarfélögin hvorki fugl né fiskur.
Um leið og eldri borgarar hætta að greiða félagsgjöld er þeim hent út á „gaddinn“.
Á yfirborðinu segjast stéttarfélögin (sbr. ályktun SGS í okt. 2023) styðja við „kröfur“ eldri borgara.
En svo gerist ekkert. Hvar eru efndirnar.
Ef við skoðum hverjar óskir eldri borgara eru hvað kjaramálin áhrærir, þá er rétt að vekja athygli á hverjar þær eru:
Leiðréttingar sem eldri borgara fara fram á eru eftirfarandi:
- Fái að vinna lengur og án þess að lífeyrissjóðsgreiðslur skerðist við 70 ára aldur. Þar tapast 11,5%. Launagreiðendur geta því sparað sér að greiða þessar lögboðnu greiðslur skv. lögum. Því segjum við að eldri borgarar sem vilja og geta unnið er nú ódýrasta vinnuaflið.
- Starfslok miðist við færni en ekki aldur.
- Frítekjumark hjá þeim sem fá lífeyrir hjá TR sem í dag eru 25.000 kr. (óbreytt frá 2017) taki mið af launavísitölu.
- Frítekjumark fjármagnstekna gildi gagnvart lífeyri frá almannatryggingum og verði 300.000 kr.
- Ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lægsti launataxti hjá stéttarfélögum
- Sérstakt skattþrep og/eða hækkun persónuafsláttar fyrir þá sem eru orðnir 70 ára.
- Draga úr skerðingum hjá þeim sem eru undir viðurkenndu framfærsluviðmiði.
- Erfðafjárskattur verður alfarið felldur niður eins og gert er hjá norrænum ríkjum. Möguleiki væri að setja þak sem m.v. 200 milljónir eða meira.
- Gjafir til barna verði ekki skattlagðar og takmarkist við mun hærri upphæð en nú er
Allar þessar kröfur munu þegar á reynir skapa ríkinu umtalsverðar tekjur í formi virðisaukaskatts og annarra skatta. Hafandi í huga að þeir sem fá ellilífeyrir frá TR greiða yfir 70% jaðarskatta. Er það réttlátt?
Að þessu sögðu er ljóst af mörgu er að taka. Auðvitað er ljóst að yfirvöld geta ekki sett þetta allt á dagskrá í sömu andrá. En þolinmæðin er á þrotum og ljóst að mörg þessara mála þola ekki mikla bið.
Skilningur á stöðu aldraða er ekki nægur frá stjórnmálaflokkum og stéttarfélögum. Sagan sannar það. Nú eru framundan að láta verkin tala.
Félög eldri borgara (FEB) og LEB munu fylgja þessu eftir eins lengi og þurfa þykir.
Með sumarkveðju frá formanni FEB.