Eitt af lögbundnum hlutverkum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) er að vinna að úrbótum í húsnæðismálum eldri borgara.
Árið 2018 gerðist FEB stofnaðili að Leigufélagi aldraðra (LA). Leigufélag aldraðra hefur þann tilgang að byggja eða kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra leiguíbúða, sbr. lög nr. 52/2016, um almennar íbúðir. Eingöngu félagsmenn í FEB geta orðið leigjendur hjá LA.
LA fékk úthlutað lóðum við Vatnsholt í Reykjavík árið 2018. Samið var við Vildarhús ehf. um umsjón framkvæmda. Þann 17. mars 2021 var tekin fyrsta skóflustungan og síðan hefur verið unnið að byggingu íbúðanna. Um er að ræða samtals 51 tveggja og þriggja herbergja leiguíbúðir.
Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar til leigutaka í áföngum á þriðja og fjórða ársfjórðungi ársins 2022.
Nánari upplýsingar um leiguíbúðirnar og um skilyrði fyrir úthlutun þeirra er að finna á heimasíðu LA: www.leigald.is
Til þess að eiga kost á að leigja íbúð við Vatnsholt verður viðkomandi að vera félagsmaður í FEB og vera skráður félagi í Leigufélagi aldraðra.