Íslendingasagnanámskeiðið hefst föstudaginn 18. janúar kl. 13.00 og verður á hverjum föstudegi í tíu vikur. Kennari sem fyrr Baldur Hafstað.Við ætlum að halda okkur við Vestfirði í fyrri hluta námseiðsins og lesa upphafskaflana í Fóstbræðra sögu. Sögusviðið er Ísafjarðardjúp og nærliggjandi svæði. Sjáum til hvernig þetta gengur en ekki er ætlunin að lesa alla söguna í þessari lotu. Við snúum okkar þess í stað að Finnboga sögu ramma, afar athyglisverðri og skemmtilegri sögu af Urðaketti sem síðar fékk nafnið Finnbogi og viðurnefnið rammi. Finnbogi fór víða á langri ævi og bar loks beinin á Vestfjarðakjálkanum, nánar tiltekið í Trékyllisvík; dugandi maður og drengur góður. Höfum í huga að þótt þessar gömlu skræður okkar séu kenndar við karla þá eru konurnar drifkraftur þeirra! Því er alveg óþarfi að segja: „Enn ein karlasagan, nei takk!“