Ályktun aðalfundar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni 21. febrúar 2024
Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skorar á stjórnvöld að setja aukinn kraft í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu. Nú er svo komið að algjört neyðarástand hefur skapast, enda fer eldra fólki ört fjölgandi. Nú eru 243 einstaklingar, skv. tölum landlæknisembættisins frá því í september 2023, á biðlista. Hægt gengur að vinna á biðlista þessum en hann stendur nánast í stað eða bætist við hann milli ársfjórðunga. Þetta er algjörlega óboðlegt ástand og stjórnvöldum til háborinnar skammar sem hafa haft mjög langan tíma til að leysa þetta vandamál. Enda hefur verið fyrirséð í mörg ár í hvað stefndi þar sem mannfjöldaspár hafa sýnt það, svart á hvítu, að veruleg fjölgun myndi eiga sér stað í náinni framtíð.
Þolmörkum hefur verið náð fyrir löngu. Verði ekkert að gert mun eldra fólk á biðlista eftir hjúkrunarheimili ekki komast að sem setur enn aukið álag á sjúkrahúsin, sem þegar finna fyrir ástandinu. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að halda fólki á sjúkrahúsi, sem á raunar að vera inni á hjúkrunarheimilum. Það segir sig auðvitað sjálft að mikill munur er á lífsgæðum eldri borgara sem rúmliggjandi eru á sjúkrahúsi eða á hjúkrunarheimili þegar læknisaðstoð á sjúkrahúsi er lokið. Þeir einstaklingar sem komast ekki áfram í kerfinu verða af ákveðnum félagslegum tengslum og ýmis konar afþreyingu og tómstundum sem hjúkrunarheimilin geta boðið sínu heimilisfólki á meðan sjúkrahús hafa ekki slíka þjónustu að bjóða. Einmannaleika þarf svo sannarlega að sporna við og það gerum við ekki með því að halda einstaklingum á sjúkrahúsi sem eru tilbúnir til útskriftar yfir á hjúkrunarheimili. Enda er allt annað að vera inni á heimili með sína persónulegu hluti og aðstöðu til að taka á móti nánustu fjölskyldu eða vinum. Á sjúkrahúsi er hætt við einangrun, þar sem heimsóknir og almenn lífsgæði eru takmörkuð sem getur valdið því að eldra fólk visnar upp og jafnvel deyr á biðlistanum.
Birst hafa fréttir í fjölmiðlum um breytingar á heilbrigðisstofnunum þar sem skrifstofur og baðherbergi hafa verið rýmd og gerð úr þeim hjúkrunarrými eða einbýlum breytt í tvíbýli. Aðalfundur FEB bendir á að aðbúnaður þessi er í engu samræmi við lágmarksviðmið um byggingu og starfsemi hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma frá júní 2014, sem velferðarráðuneytið ákvað varðandi skipulag hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma. Það er kvíðvænlegt fyrir marga að lenda á þessum stofnunum, vera þar öðrum háður og vita að þjónustan er í algjöru lágmarki. Ríki og sveitarfélögum er skylt að koma þessum málum í lag sem fyrst og hætta að kasta vandanum á milli sín. Við sættum okkur ekki við neitt annað!
Hagsmuna- og baráttumál
Hagsmuna- og baráttumál
Áhersluatriði eldra fólks fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022
Bréf frá stjórn FEB til þingmanna Reykjavíkurkjördæma N og S, ritað 25.11.20.
Til þingmanna Reykjavíkurkjördæma norður og suður
Á næstu vikum mun það koma í ykkar hlut að taka þátt í afgreiðslu fjárlaga næsta árs og þá m.a. taka afstöðu til þess hver eigi að verða hækkun greiðslna almannatrygginga milli áranna. Í því sambandi vill FEB vekja athygli ykkar á því að á undanförnum árum hefur stöðugt dregið sundur með lágmarkslaunum og lífeyri almannatrygginga til aldraðra og öryrkja, eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti í mörgum umsögnum um fyrirliggjandi fjár-lagafrumvarp.
Samkv. 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða „meðaltalshækkun skv. kjarasamningum,“ en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á s.l. 10 árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lág-markslaunum niður í 75%. Með öðrum orðum: Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%.
Óánægja og reiði aldraðra vegna þessarar þróunar fer vaxandi og um leið vantrú á að eitthvað sé að marka fögur fyrirheit stjórnmálamanna og flokka fyrir kosningar. Krafa eldri borgara er að frekari kjaragliðnun verði stöðvuð nú þegar, og síðan verði hafist handa um að vinda ofan af kjaragliðnun undanfarinna ára.
Nú liggur það fyrir að samkvæmt lífskjarasamningnum eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum, heldur verða þær sama krónutala á alla línuna; 15.750 kr. ofan á alla launataxta lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilífeyrisins taki mið af. Ellilífeyririnn þarf því að hækka um þessa sömu krónutölu ef fullnægja á 69. greininni. Hann myndi þá fara úr 256.800 kr./mán. í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
Með tilliti til atvinnuástandsins í landinu er líka vert að benda á, að það myndi hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn að draga úr skerðingum ellilífeyris vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, t.d. með því að sameina núverandi frítekjumörk í eitt 125 þús. kr. almennt frítekjumark. Það myndi auðvelda eldra fólki að láta af störfum og losa með því um störf fyrir þá sem yngri eru.
Fyrir hönd um 13.000 félagsmanna í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni heitum við á ykkur, þingmennina okkar, að veita þeim málefnum sem hér hafa verið rakin stuðning ykkar við afgreiðslu fjárlaga á komandi vikum.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar FEB
Ingibjörg Sverrisdóttir
formaður
Kjaranefnd FEB – (nóvember 2020)
Á árum áður starfaði sérstök kjaranefnd á vegum FEB, en nokkur undanfarin ár hefur félagið ekki haldið úti eigin nefnd heldur hefur verið starfandi sameiginleg kjaranefnd FEB og LEB. Það fyrirkomulag hefur ekki þótt reynast allskostar vel, og ákvað ný stjórn FEB því að setja á stofn að nýju fimm manna kjaranefnd á vegum félagsins.
Gengið var frá skipun nefndarinnar á stjórnarfundi 22. september s.l.. Áskilið var að tveir nefndarmanna væru úr hópi aðalmanna í stjórn, og skipa þau sæti þær Ingibjörg Sverrisdóttir og Sigurbjörg Gísladóttir, en auk þeirra eru í nefndinni Finnur Birgisson, Þorbjörn Guðmundsson og Haukur Arnþórsson. Finnur Birgisson var valinn formaður nefndarinnar, og nefndarmennirnir Þorbjörn Guðmundsson og Sigurbjörg Gísladóttir hafa verið tilnefnd sem fulltrúar FEB í kjaranefnd LEB.
Hvað kjaramálin varðar beinist athyglin nú þegar aðventan nálgast einkum að fjárlagafrumvarpinu, sem er til umfjöllunar á Alþingi og verður væntanlega afgreitt fyrir jól. Í því er aðeins gert ráð fyrir 3,6% hækkun á upphæðum almannatrygginga um áramótin, en ef það gengur eftir mun lífeyririnn halda áfram að dragast aftur úr launaþróuninni eins og hann hefur verið að gera s.l. áratug. Sem dæmi þá jafngildir 3,6% hækkun á ellilífeyrinum 9.250 kr. hækkun, en samkvæmt lífskjarasamningunum er almenn umsamin launahækkun hjá BSRB, ASÍ og BHM fyrir árið 2021 15.750 kr. á öll laun. Barátta samtaka aldraðra og öryrkja, sem eru undir sömu sök seldir að þessu leyti, beinist því þessa dagana að því að fá þessu breytt í meðförum þingsins.
Reyndar hefur það vakið sérstaka athygli og undrun að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna covid faraldursins, sem kynntur var 20. nóvember s.l. með ýmsum stuðningsaðgerðum við „atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa,“ var ekki minnst einu orði á tekjulága ellilífeyrisþega og í pakkanum var ekkert að finna sem gagnast gæti þeim. Samtök aldraðra hljóta að krefja stjórnvöld um skýringar á þessu og krefjast þess jafnframt að aldraðir skjólstæðingar TR verði látnir njóta jafnræðis við aðra lífeyrisþega.
EFtirfarandi tvær ályktanir voru samþykktar á aðalfundi FEB 16. júní 2020
Aðalfundarályktun 1:
Nú duga ekki lengur orðin tóm
Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um. Á tímabilinu 2010-2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessa tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þús. kr. á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerf markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öfun viðbótartekna. Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.
Aðalfundur FEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hefja vinnu við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.
Aðalfundarályktun 2:
Málsókn gegn ríkinu eina úrræðið
Aðalfundur FEB 2020 lýsir yfr fullum stuðningi við málsókn Gráa hersins gegn stjórnvöldum og hvetur eftirlaunafólk að fylkja sér á bak við hana. Tilgangur málsóknarinnar er að fá úr því skorið hvort skerðing almannatrygginga standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Eftirlaunafólk hefur ekki yfir að ráða neinum þvingunarúrræðum til að knýja á úrlausn mála sinna gagnvart stjórnvöldum. Málsókn gegn ríkinu er því aðferð sem eftirlaunafólk neyðist nú til að grípa til, þar sem ekki virðast vera líkur á að aðrar og hefðbundnari aðferðir muni bera árangur.
Fundurinn fagnar mjög þeirri ákvörðun stjórnar VR að gerast fjárhagslegur bakhjarl Málsóknarsjóðs Gráa hersins, og tryggja með því að mögulegt verður að reka málið fyrir öllum dómsstigum þar til lokaniðurstaða fæst.
Kjör aldraðra – lokaútgáfa skýrslu dr. Hauks Arnþórssonar sem hann vann fyrir FEB í lok árs 2017. Smelltu HÉR til að opna skýrsluna.
Samþykkt aðalfundar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um skerðingu almannatrygginga
Aðalfundur FEB 19. febrúar 2019 fagnar framkominni kröfu stéttarfélaga og sambanda innan ASÍ um að stigið verði ákveðið skref til lækkunar á skerðingu almannatrygginga úr 45% í 30% vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Sú óréttláta skerðing sem viðgengst í dag á sér ekkert fordæmi í þeim löndum sem við berum okkur saman við og stuðlar að fátækt meðal eldri borgara og rýrir traust á lífeyrissjóðum.
Einnig leggur fundurinn áherslu á að tryggður verði jöfnuður milli lífeyrisþega gagnvart almannatryggingum, vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum sem tilkominn er vegna skylduiðgjalds, hvort sem lífeyrir kemur úr samtryggingu eða séreign.
Fundurinn leggur allt traust sitt á að ASÍ fylgi kröfunni fast eftir í viðræðum við stjórnvöld og ekki verði hvikað frá henni fyrr en ásættanleg niðurstaða fæst.
Tannlækningar eldri borga
Af gefnu tilefni viljum við gefa heilbrigðisráðuneytinu tækifæri á að greiða sem allra fyrst þá skuld sem ráðneytið skuldar eldri borgurum vegna ákvæða í reglugerð um tannlækningar frá 2013. Skuldin var talin nema 800 milljónum s.l. haust. Það staðfesti þáverandi heilbrigðisráðherra í viðtali við fjölmiðla þann 13. september s.l. þar sem hann sagði að verið væri að reikna skuldina út og vinna stæði yfir í ráðuneytinu við það verkefni. Fram hefur komið að 23.000 eldri borgarar hafi greitt of mikið vegna tannlæknaþjónustu. Óskað er eftir viðtölum við stjórnvöld um málið sem allra fyrst og áður en skuldin verður sett í lögfræðilega innheimtu.
Heilbrigðismál
Sú alvarlega staða er nú uppi að hjúkrunarheimilispláss fyrir aldrað veikt fólk eru allt of fá. Fólk bíður og bíður á Landspítalanum og einnig í heimahúsum. Það bjargast með dagþjálfun eða með því að ættingjar taka að sér umönnun þess. Bygging hjúkrunarheimila hefur setið á hakanum í alltof langan tíma og nú þegar loks hillir undir eitt hjúkrunarheimili er öllum ljóst að biðin er enn tvö ár a.m.k. Það er því áskorun til heilbrigðisráherra að finna lausn á fráflæðisvanda Landspítalans og efla enn frekar stuðning með dagþjálfun og hvíldarinnlögnum. Það er ekki mannsæmandi að fólk með fullt heilsu- og færnimat liggi á göngum sjúkrahúsa vikum saman. Á þeim tíma falla margir frá án þess að fá lausn sinna mála. Í Reykjavík á að opna 100 rými á næstunni en biðin er þungbær og þeir sem bíða þarfnast mikils stuðnings og þeirra fjölskyldur. Brýnt er að leysa þann vanda hratt.
Ályktanir aðalfundar 2015 um kjaramál
- Lífeyrisþegar eiga inni 30 milljarða hjá ríkinu
- Skerðing tryggingabóta vegna lífeyrissjóðs verði stöðvuð
- Neyslukönnun: Vantar 129 þús. kr. á mánuði
- VSK af lyfjum verði afnuminn
- Komugjöld í heilbrigðiskerfi afturkölluð
- Sjúkrahúsvist verði áfram gjaldfrjáls
- Eldri borgarar njóti fullra mannréttinda
- Borgin lækki gjaldskrár fyrir aldraða
- Boðuð hækkun á lífeyri standi
Tillögur um kjaramál
Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, haldinn 20. febrúar 2015 samþykkir eftirfarandi:
Lífeyrisþegar eiga inni 30 milljarða hjá ríkinu
„Aðalfundurinn bendir á, að ríkisstjórnin er aðeins búin að framkvæma lítinn hluta þeirra kosningaloforða, sem öldruðum og öryrkjum voru gefin fyrir síðustu alþingiskosningar. Eftir er að framkvæma stærsta kosningaloforðið við lífeyrisþega, þ.e. að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans en það kostar 17 milljarða að framkvæma það loforð. Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja vegna laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá 1. júlí 2009 kostaði lífeyrisþega aðra 17 milljarða á tímabilinu 2009-2013. Aldraðir og öryrkjar hafa aðeins fengið brot af þeirri kjaraskerðingu til baka eða 4,4 milljarða. Lífeyrisþegar eiga því eftir að fá 12,6 milljarða af þeirri kjaraskerðingu. Alls eiga því Lífeyrisþegar eftir að fá tæpa 30 milljarða í bætur. Aðalfundurinn krefst þess, að aldraðir og öryrkjar fái þessar bætur strax. Lífeyrisþegar geta ekki beðið.
Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2013 var samþykkt að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi 1.júlí 2009 yrði afturkölluð. Ennfremur var samþykkt að lífeyrir aldraðra og öryrkja yrði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra á krepputímanum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var samþykkt að sú kjaraskerðing ,sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1.júlí 2009 yrði tafarlaust afturkölluð. Einnig var samþykkt á landsfundinum, að leiðrétta ætti kjaragliðnun krepputímans. Í bréfi, sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sendi kjósendum 2013 segir svo m.a.: “ Við ætlum að afnema tekjutengingu ellilífeyris.”
Af þessum tilvitnunum er ljóst, að stjórnarflokkarnir lofuðu því fyrir kosningar af afturkalla ALLA kjaraskerðinguna frá 2009. Og þeir hétu því einnig að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans. Fyrirheit Bjarna Benediktssonar um að afnema eigi tekjutengingu ellilífeyris þýðir það, að afnema á skerðingu tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og allar skerðingar lífeyris vegna annarra tekna.“
Skerðing tryggingabóta vegna lífeyrissjóðs verði stöðvuð
Aðalfundurinn álítur að afnema eigi skerðingu tryggingabóta aldraðra hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Fundurinn minnir á, að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því, að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar. Ekki var reiknað með því, að greiðslur úr lífeyrissjóðum mundu skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum. Í dag er skerðingin svo mikil að óánægjan með hana ógnar lífeyrissjóðunum og almannatryggingum. Enda þótt ákvörðun um skerðingu tryggingabóta aldraðra hafi verið tekin af alþingi og stjórnvöldum láta margir lífeyrisþegar óánægju sína bitna á lífeyrissjóðunum. Skerðing tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði er mjög mikil. Þetta er mikið ranglæti og þetta verður að leiðrétta. Kjaranefnd skorar á ríkisstjórn og alþingi að afnema þessar skerðingar. Ef það þykir of kostnaðarsamt að afnema skerðingarnar í einum áfanga má gera það í 2-3 áföngum.
Neyslukönnun: Vantar 129 þús. kr. á mánuði
„Aðalfundurinn telur, að við ákvörðun um lífeyri aldraðra frá almannatryggingum eigi að miða við neyslukönnun Hagstofunnar. Samkvæmt henni eru meðaltalsútgjöld einhleypinga til neyslu 321 þús. kr. á mánuði. Engir skattar eru innifaldir í þeirri tölu. Lífeyrir einhleypra eldri borgara frá almannatryggingum er 192 þús. kr. á mánuði eftir skatt, hjá þeim, sem hafa einungis tekjur frá TR. mismunurinn er 129 þús. kr. á mánuði. Fundurinn telur að jafna eigi þennan mun í þremur áföngum, á þremur árum, þannig að lífeyrir hækki um 43 þús. kr. í hverjum áfanga. Fyrsti áfangi gæti komið til framkvæmda um næstu áramót. Kjaranefndin skorar á félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016, að þessi leiðrétting á lífeyri aldraðra ( hækkun um 43 þús. kr á mánuði) komi til framkvæmda um næstu áramót.“
VSK af lyfjum verði afnuminn
Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórnina að fella niður virðisaukaskatt á lyfjum. Verð á lyfjum er svo hátt, að margir eldri borgarar eiga erfitt með að leysa út lyf sín og sumir aldraðir hafa alls ekki efni á að kaupa lyf. Brýna nauðsyn ber til þess að lækka lyfjaverð. Afnám virðisaukaskatts af lyfjum er besta leiðin til þess. Virðisaukaskattur á lyfjum er 24 % hér á landi. Það er hærra en í nokkru öðru Evrópulandi. Í Svíþjóð er enginn virðisaukaskattur á lyfjum og í Finnlandi er virðisaukaskattur á lyfjum 8%. Á hinum Norðurlöndunum er virðisaukaskattur á lyfjum nálægt því sem hér er. Í Bretlandi er enginn virðisaukaskattur á lyfjum, í Frakklandi er skatturinn 2,1%, í Sviss og Austurríki 2,5% og á Spáni 4%. Eldri borgarar nota mikið af lyfjum og því mundi það verða góð kjarabót fyrir aldraða, ef þeir gætu keypt lyfin án virðisaukaskatts. Ríkisvaldið þarf að stuðla að því, að eldri borgarar geti fengið lyf á viðráðanlegu verði.-.
Komugjöld í heilbrigðiskerfi afturkölluð.
Aðalfundurinn samþykkir eftirfarandi:
„Ríkisstjórnin hefur hækkað svo mikið komugjöld í heilbrigðiskerfinu og dregið svo mjög úr niðurgreiðslum á nauðsynlegum hjálpartækjum aldraðra, að þær takmörkuðu kjarabætur, sem aldraðir og öryrkjar hafa fengið að undanförnu hafa verið teknar til baka. Dregið hefur verið stórlega úr niðurgreiðslum á öryggishnöppum með þeim afleiðingum að leiga fyrir afnot af þessum nauðsynlegu öryggistækjum eldri borgara hefur hækkað um 89%. Allar þessar hækkanir eru sem hnefahögg í andlit aldraðra og öryrkja.
Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík ítrekar áskorun sína á heilbrigðisráðherra um að afturkalla hækkanir á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi í ársbyrjun 2014 svo og áskorun á ráðherra um að afturkalla hækkanir á ýmsum stoðtækjum og hjálpartækjum, sem nauðsynleg eru fyrir aldraða til þess að geta dvalist í heimahúsum í stað þess að fara á hjúkrunarheimili“.
Sjúkrahúsvist verði áfram gjaldfrjáls.
„Aðalfundurinn varar við ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um breytingar á heilbrigðisþjónustunni, sem geta stóraukið útgjöld eldri borgara, öryrkja og lágtekjufólks í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra hefur boðað frumvarp um eitt niðurgreiðslu-og afsláttarkerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu ( lyf innifalin). Í frumvarpinu verður lagt til, að fella læknis,-lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunarkostnað og annan kostnað við heilbrigðisþjónustu undir eitt niðurgreiðslu og afsláttarfyrirkomulag. Sett verði þak á þátttöku einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu, hvort sem kostnaður fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu. Rætt hefur verið um, að umrætt þak verði 120 þús. kr. Ef meiningin er, að kaupendur heilbrigðisþjónustu verði að greiða allan heilbrigðiskostnað utan eða innan heilbrigðisstofnana þar til umræddu þaki er náð, mundi það verða öldruðum, öryrkjum og lágtekjufólki um megn. Almenningur yrði þá að greiða fyrir sjúkrahúsvist þar til 120 þús. markinu væri náð. Það gæti leitt til þess, að hinir efnaminni yrðu að neita sér um sjúkrahúsvist. Aðalfundurinn mótmælir harðlega öllum ráðagerðum í þessa átt og krefst þess, að almenningur eigi áfram kost á gjaldfrjálsri sjúkrahúsþjónustu“.
Eldri borgarar njóti fullra mannréttinda.
Aðalfundurinn samþykkir eftirfarandi:
„Samkvæmt stjórnarskránni eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og allir eiga að njóta mannréttinda. Í lögum um málefni aldraðra segir, að aldraðir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins. Mikill misbrestur hefur verið á því, að þessum lagaákvæðum hafi verið framfylgt. Rannsóknir leiða í ljós, að biðtími aldraðra eftir meðferð á sjúkrastofnunum er lengri en þeirra sem yngri eru. Í launa-og kjaramálum hafa eldri borgarar sætt annarri meðferð en aðrir launþegar. Kjörum eldri borgara hefur verið haldið niðri og þau skert á sama tíma og láglaunafólk hefur fengið kjarabætur. Embættismenn og alþingismenn hafa fengið leiðréttingu á kjörum sínum afturvirkt á sama tíma og kjör aldraðra hafa verið fryst. Eldri borgurum hefur því verið mismunað freklega. Mannréttindi hafa ítrekað verið brotin á þeim. Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi árið 2009, var brot á mannréttindum og hið sama er að segja um kjaragliðnun krepputímans“.
Borgin lækki gjaldskrár fyrir aldraða
„Aðalfundurinn skorar á Reykjavíkurborg að lækka gjöld fyrir þjónustu, sem borgin veitir eldri borgurum. Talsverð hækkun hefur orðið á þessum gjöldum síðustu árin. Þessar gjaldskrárhækkanir koma mjög illa við eldri borgara. Enda þótt ekki hafi verið um mjög miklar hækkanir að ræða er hækkunin mjög tilfinnanleg fyrir láglaunafólk meðal aldraðra. Gjald fyrir félagslega heimaþjónustu er hóflegt og þeir ellilífeyrisþegar, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum, geta fengið lækkun á gjaldi fyrir heimaþjónustu. Heimahjúkrun er gjaldfrjáls. Þar er um mjög mikilvæga þjónustu að ræða og allir eldri borgarar, sem þurfa á heimahjúkrun að halda, geta notið hennar án tillits til efnahags.
Fundurinn skorar á Reykjavíkurborg að gera átak í byggingu hjúkrunarheimila. Biðlisti eftir rými á þessum heimilum er mjög langur í dag, að lágmarki 4 mánuðir en getur í vissum tilvikum orðið miklu lengri. 300 eru nú á biðlista eftir hjúkrunarheimilum í Reykjavík. Það vantar nokkur ný hjúkrunarheimili á Stór-Reykjavíkursvæðinu en auk þess á eftir að breyta fjölbýlisherbergjum margra eldri hjúkrunarheimila í einbýli til þess að uppfylla það stefnumið stjórnvalda, að allir eldri borgarar, sem þurfa á hjúkrunarrými að halda, geti verið í einbýli. Jafnframt því, sem byggð verða fleiri hjúkrunarheimili, þarf að efla heimahjúkrun til þess að eldri borgarar geti verið sem lengst í heimahúsum, á meðan heilsa leyfir. Kjaranefndin fagnar viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytisins um að fjölga hjúkrunarrýmum á tímabilinu fram til 2020.
Reykjavíkurborg leitar nú eftir því að verða tilnefnd aldursvæn borg hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.Með hliðsjón af því stefnumáli borgarinnar þarf borgin að bæta kjör og aðstöðu eldri borgara. Í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017 segir, að borgin vilji stuðla að fjölbreyttu framboði af námskeiðum og afþreyingu fyrir eldri borgara. Borgin verður að tryggja að þessi þjónusta sé á viðráðanlegu verði fyrir eldri borgara“.
Boðuð hækkun á lífeyri stand
„Aðalfundurinn mótmælir því harðlega að ríkisstjórnin skyldi lækka boðaða hækkun lífeyris aldraðra frá TR úr 3,5% í 3% um síðustu áramót. Hér er um að ræða hækkun bóta vegna verðlagsbreytinga. Með hliðsjón af því að stjórnarflokkarnir skulda lífeyrisþegum leiðréttingu á lífeyri almannatrygginga vegna kjaragliðnunar á krepputímanum og með því að nokkur atriði kjaraskerðingar frá 2009 eru óuppgerð lýsir það mjög neikvæðri afstöðu stjórnvalda til lífeyrisþega að skera lífeyrinn niður um hálft prósentustig frá því, sem lagt var til í fjárlagafrumvarpinu. Eðlilegt hefði verið að ríkisstjórnin hækkaði lífeyri aldraðra og öryrkja verulega um síðustu áramót til þess að hefja leiðréttingu lífeyris“.
febrúar 2015
Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík
Björgvin Guðmundsson, formaður