Hafa eldri borgarar það gott? Skoðum málið.

Grein eftir Sigurð Ágúst Sigurðsson, formann FEB sem birtist í Morgunblaðinu 4. okt. 2024

Fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu á Alþingi gerir ráð fyrir því að frítekjumarkið til handa þeim sem aðeins fá greitt frá TR (fái ekki greitt úr lífeyrissjóðum) hækki úr 25.000 kr. í 36.000 kr. á mánuði. Fjármálaráðherra talar um 46% hækkun eða 11.000 kr. á mánuði. Þetta frítekjumark hefur ekki hækkað í 8 ár að raungildi. Á sama tíma hefur launavísitala frá jan. 2017 til júlí 2023 hækkað um 70%. Eftir þessa hækkun vantar því 6.500 kr. á mánuði til að jafna 25.000 kr. frítekjumarkið frá 2017 til dagsins í dag. Allar tölur eru fyrir skatt. Landssamband eldri borgara (LEB) hefur barist af veikum mætti fyrir hækkun á frítekjumarkinu upp í 100.000 kr. á mánuði. Það vantar því töluvert upp á að réttlætið nái fram að ganga.

Þrátt fyrir þjóðarsáttasamninga í byrjun árs hefur grunnlífeyrir TR ekki hækkað í takt við þá. Lægsti launataxti á vinnumarkaði er 425.985 en TR miðar nú við 350.922 kr. (reiknivél TR) Þarna munar hvorki meira né minna en 75.063 kr. á mánuði.

Vinnumarkaðurinn fékk samningsbundna launahækkun að lágmarki 23.750 kr. í febrúar 2024. Þann 1. janúar 2025 kemur önnur hækkun. Það þýðir að lægsti launaataxti hefur hækkað. 425.985 kr. + 23.750 kr. + 23.750 kr. = 473.485 kr. Það sjá það allir að bilið eykst með hverju ári eldri borgurum í óhag.

Hvers vegna fá aldraðir ekki samskonar hækkun og vinnumarkaðurinn fékk í vor? Hvenær verður öldruðum þá bætt upp launahækkunin frá því vor? Það er eins og að fólk sem taka ákvarðanir um kjör eldri borgara eigi ekki eða hafa ekki átt foreldra.

Þetta sama fólk hefur reiknað það út í Exel að aldraðir hafi það gott „AÐ MEÐALTALI“. Við eigum að fagna því að aldraðir hafi það gott „að meðaltali“. Það á ekki við um tugi þúsunda eldri borgara þessa lands. Það þýðir að 50% eldri borgara þurfi að neita sér um lífsins gæði. Hafa jafnvel takmörkuð efni á að kaupa lyf eða sækja sér læknisaðstoðar.

Sem formaður FEB skora ég á yfirvöld að sýna meiri skilning á stöðu aldraða og bæta upp það sem upp á vantar eins og hér hefur verið rakið. Kjör eldri borgara fara versnandi ef ekkert verður að gert. Á sama á sama tíma skella á samfélagið hækkanir á mat og opinber gjöld.

Eldri borgarar þessa lands munu nú leggja við hlustir og hvað yfirvöld muni leggja sig mikið fram um að rétta hlut þeirra. Það eru jú að koma kosningar 2025.

Höfundur er formaður FEB (Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni)
Sigurður Ágúst Sigurðsson