Á árum áður starfaði sérstök kjaranefnd á vegum FEB, en nokkur undanfarin ár hefur félagið ekki haldið úti eigin nefnd heldur hefur verið starfandi sameiginleg kjaranefnd FEB og LEB. Það fyrirkomulag hefur ekki þótt reynast allskostar vel, og ákvað ný stjórn FEB því að setja á stofn að nýju fimm manna kjaranefnd á vegum félagsins.
Gengið var frá skipun nefndarinnar á stjórnarfundi 22. september s.l.. Áskilið var að tveir nefndarmanna væru úr hópi aðalmanna í stjórn, og skipa þau sæti þær Ingibjörg Sverrisdóttir og Sigurbjörg Gísladóttir, en auk þeirra eru í nefndinni Finnur Birgisson, Þorbjörn Guðmundsson og Haukur Arnþórsson. Finnur Birgisson var valinn formaður nefndarinnar, og nefndarmennirnir Þorbjörn Guðmundsson og Sigurbjörg Gísladóttir hafa verið tilnefnd sem fulltrúar FEB í kjaranefnd LEB.
Hvað kjaramálin varðar beinist athyglin nú þegar aðventan nálgast einkum að fjárlagafrumvarpinu, sem er til umfjöllunar á Alþingi og verður væntanlega afgreitt fyrir jól. Í því er aðeins gert ráð fyrir 3,6% hækkun á upphæðum almannatrygginga um áramótin, en ef það gengur eftir mun lífeyririnn halda áfram að dragast aftur úr launaþróuninni eins og hann hefur verið að gera s.l. áratug. Sem dæmi þá jafngildir 3,6% hækkun á ellilífeyrinum 9.250 kr. hækkun, en samkvæmt lífskjarasamningunum er almenn umsamin launahækkun hjá BSRB, ASÍ og BHM fyrir árið 2021 15.750 kr. á öll laun. Barátta samtaka aldraðra og öryrkja, sem eru undir sömu sök seldir að þessu leyti, beinist því þessa dagana að því að fá þessu breytt í meðförum þingsins.
Reyndar hefur það vakið sérstaka athygli og undrun að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna covid faraldursins, sem kynntur var 20. nóvember s.l. með ýmsum stuðningsaðgerðum við „atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa,“ var ekki minnst einu orði á tekjulága ellilífeyrisþega og í pakkanum var ekkert að finna sem gagnast gæti þeim. Samtök aldraðra hljóta að krefja stjórnvöld um skýringar á þessu og krefjast þess jafnframt að aldraðir skjólstæðingar TR verði látnir njóta jafnræðis við aðra lífeyrisþega.