Harpa Njáls, sérfræðingur í velferðarrannsóknum og félagslegri stefnumótun.
Greinin er birt í Morgunblaðinu 18.12.2017.
Ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur tekið við völdum – og fer af stað með byr í seglin. Ríkisstjórn þriggja flokka og Alþingi, sem mætast með vilja til góðra verka og breytinga, geta leyst fjölda fólks á Íslandi úr fátækt, bágum kjörum og vonlausum heilsuspillandi aðstæðum! Margir stjórnmálaflokkar hafa komið að málum án „nægilegra“ leiða til úrbóta. Á Íslandi hefur fátækt verið landlæg til fjölda ára, m.a. öryrkjar, aldraðir, láglaunafólk og börn – það sýna niðurstöður rannsókna (sjá m.a. „Fátækt á Íslandi“ Harpa Njáls, 2003, 2006, 2007, 2009 og síðar).
Hér verður sjónum beint að lífskjörum eldri borgara, viðskiptavina Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Undirrituð hefur greint stöðu aldraðra, þ.e. afleiðingar lagasetningar 2016 og sýnt fram á með niðurstöðum rannsókna – að aldraðir búa við fátækt (sjá m.a. Harpa Njáls, Morgunblaðið, 08.09.2016 og 29.09.2016). Fátæktargildran er fyrst og fremst afleiðing stefnumótunar stjórnvalda og Alþingis.
Eftirlaunafólk býr við lágan lífeyri sem ákveðinn er án þeirrar ábyrgðar að dugi til framfærslu; harðar skerðingar og skortur á raunhæfum frítekjumörkum. Skerðingar þarf að afnema! Nýleg rannsókn dr. Hauks Arnþórssonar sem byggir m.a. á gögnum ríkisskattstjóra staðfestir að 75% aldraðra hafa tekjur undir hóflegri framfærslu. Fjöldi aldraðra býr við fátækt!
Það vekur furðu að á Íslandi sem talið er ein af ríkustu þjóðum heims skuli fátækt og skortur líðast. Þetta endurspeglast m.a. í því að ríkið ver einu lægsta hlutfalli landsframleiðslu (VLF) allra OECD-ríkja til eftirlauna aldraðra. Hér er þó hagsæld einna mest. Mikilvægt er að ríkisstjórn og nýkjörið Alþingi – sem vald hafa til að lögfesta ákvarðanir um lífskjör og afkomu þegnanna – geti sett sig í spor annarra og hafi vilja til að sjá afleiðingar af lagasetningu Alþingis. Afleiðingar sem fjötra fólk í fátækt.
HVAÐ VAKTI FYRIR STJÓRNMÁLAMÖNNUM OG ALÞINGI?
Ljóst er að frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar lagt fram 2016 hafði öll einkenni þess að draga átti úr útgjöldum ríkissjóðs – án tillits til afleiðinga. Ellilífeyrir TR átti ekki að hækka um krónu, skerðingar hertar og öll frítekjumörk (lífeyrissjóðs-, fjármagns- og atvinnutekna) látin fjúka – samtals 145.220 á mánuði, þ.e.: Fram til 2017 máttu eldri borgarar hafa tekjur kr. 1.742.640 á ári til viðbótar lífeyri TR án skerðinga! Þetta frumvarp var afrakstur nefndarstarfa til 10 ára, m.a. á vegum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (skilað af sér 2016) og einnig nefndar Samfylkingar og VG sem skilaði tillögum 2012, þ.e. samhljóða og hér að ofan greinir (sjá Árni Gunnarsson, ASÍ, 18.10.2012).
Með baráttu Félags eldri borgara, Gráa hersins og aldraðra, fékkst lítilsháttar breyting á frumvarpinu, m.a. 6% hækkun á ellilífeyri og nokkuð hærri með heimilisuppbót. Eitt almennt frítekjumark var sett 25.000 á mánuði, þ.e. 300.000 á ári. Staðreyndir tala sínu máli eins og taflan hér að neðan sýnir!
AFRAKSTUR BREYTINGA OG LÍFSKJÖR ALDRAÐRA Í DAG
Hér eru sett fram mismunandi dæmi um kjör og afkomu eldri borgara sem býr einn – eftir breytingu á lögum um almannatryggingar, þ.e. einstaklingur með ellilífeyri og heimilisuppbót frá TR og eigin sparnað úr lífeyrissjóði. Skerðingarhlufall greiðslna úr lífeyrissjóði er 56,9% til lækkunar á ellilífeyri TR. (Skerðing vegna lífeyrissjóðs aldraðra sem býr með öðrum án heimilisuppbótar er 45%).
Töflunni hér að neðan er skipt upp í þrjá hluta: Fyrsti hluti sýnir tekjur eldri borgara frá TR og lífeyrissjóði; í öðrum hluta er skerðing og skattur sem fer í ríkissjóð; í þriðja hluta er kannað hvort laun dugi til hóflegrar framfærslu?
Taflan sýnir að ellilífeyrir og heimilisuppbót frá TR 230.000 kr. eftir skatt eru langt frá því að duga til framfærslu, hér miðað við „dæmigert viðmið“ velferðarráðuneytisins sem hvorki er talið lúxus né lágmarksneysla og hóflegan húsnæðiskostnað. Það vantar rúmlega 136.000 kr. eða 37,2% til að ellilífeyrir frá TR dugi til framfærslu. Þetta sýnir glögglega að lífeyrir er ákveðinn án þeirrar ábyrgðar að duga til framfærslu. Þetta lá fyrir áður en breytingar á lögum um almannatryggingar voru lögfestar 2016. Úr þessu þarf að bæta!
Taflan á að koma hér en vegna tækniörðugleika er hún hér að neðan:
Kjör og afkoma eldri borgara – sem býr einn
Lágur lífeyrir og harðar skerðingar vegna lífeyrissjóðs – leiða til þess að endar ná ekki saman.
Skýringar með töflu:
Útfært af Hörpu Njáls, 2017. Útreikningar í töflu byggja á reiknivél TR og ríkisskattstjóra RSK. Persónuafsláttur 52.907 kr.
Skerðing 56,9% vegna lífeyrissjóðs lækkar lífeyri TR. Frítekjumörk 25.000 kr. Framfærsluviðmið „dæmigert“ 223.046 kr. skv. velferðarráðuneytinu. Húsnæðiskostnaður er 143.306 kr. þar af er rekstur á hóflegri íbúð 31.250 kr. skv. Íbúðalánasjóði.
Taflan sýnir að 100.000 kr. úr lífeyrissjóði skerðir ellilífeyri TR um rúmlega 42.000 kr. og með skatti renna tæplega 115.000 kr. í ríkissjóð. Þá vantar 100.000 kr. að tekjur dugi til framfærslu, þ.e. 27,3%.
Einstaklingur með 200.000 kr. úr lífeyrissjóði missir helming þeirrar upphæðar vegna skerðinga og með skatti fara 187.586 kr. í ríkissjóð. Þrátt fyrir lífeyrissjóð vantar 20% uppá að tekjur dugi (72.886 kr.).
Eldri borgari með 300.000 kr. úr lífeyrissjóði missir rúmlega helming vegna skerðinga (156.475 kr.) til lækkunar útgjalda TR og ríkissjóðs, auk 104.000 kr. í skatt! Þrátt fyrir 300.000 kr. úr lífeyrissjóði vantar hér 12,5% uppá að eldri borgari hafi fyrir útgjöldum sem hvorki teljast lúxus né lágmarksneysla og mætti telja mannsæmandi lífskjör.
Þannig virkar „mekkanismi“ (vélræn högun) sem fest var í lög um almannatryggingar og Alþingi lögfesti í lok árs 2016. Taflan sýnir að fyrir hverjar 50.000 kr. úr lífeyrissjóði – skila eldri borgara 13.600 kr. í hærri launum. Staðreyndir tala skýru máli!
RÍKISSTJÓRN OG ALÞINGI HAFA VERK AÐ VINNA!
Ljóst er að lífeyrisgreiðslur TR þarf að hækka verulega. Fyrsta skref væri að hækka lífeyri sem er 197.147 kr. eftir skatt í 300.000, þ.e. 242.000 eftir skatt, þ.e. lágmarks laun sem almenn samstaða um.
Aldraðir sem hafa ekki greiðslur úr lífeyrissjóði eru illa settir og fjötraðir í fátækt! Tekjur þurfa að duga fyrir mannsæmandi lífskjörum. Eldri borgarar þurfa að sjá einhvern ávinning af því að leggja hluta atvinnutekna í lífeyrissjóð – Í dag éta skerðingar ríkisins þann ávinning að mestu.
Ekki dugir að bjóða 100.000 kr. frítekjumark vegna atvinnu eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum. Það væri klár mismunun! Hér þarf að koma til „almennt“ frítekjumark sem þjónar öldruðum jafnt og eftir aðstæðum.
Frítekjumörk voru óbreytt frá 2009 til ársloka 2016. Eðlilegt væri að hækka þá upphæð samkvæmt launavísitölu fyrir sama tímabil. Aldraðir og aðrir lífeyrisþegar hafa ekki fengið neina leiðréttingu.
Þetta munu alþingismenn væntanlega skilja – enda nýbúið að „leiðrétta“ laun þeirra um fleiri hundruð þúsund á mánuði!
Er ekki tímabært að ein ríkasta þjóð OECD-ríkja sýni fram á að það sé gott að eldast á Íslandi? Megi núverandi ríkisstjórn og Alþingi bera gæfu og grípa til aðgerða sem þarf til að draga úr fátækt og skroti á Íslandi!
Harpa Njáls, sérfræðingur í velferðarrannsóknum og félagslegri stefnumótun.
Greinin er birt í Morgunblaðinu 18.12.2017.