Athygli er vakin á starfi kjaranefndar FEB.

Í eftirfarandi útdrætti er stiklað á því helsta sem fjallað var um á fundi kjaranefndar FEB 5. sept. 2022 . Ítarlegri frásögn er að finna í sjálfri fundargerðinni sem birt er hér á heimasíðunni: https://www.feb.is/file/2022/09/Kjaranefnd-050922-fundargerd-loka2.pdf 

Framlög til almannatrygginga á fjárlögum, rætt um nauðsyn þess að skerpa á lagaákvæðum um viðmið fyrir hækkun milli ára og að æskilegt væri að lögfesta þá reglu að upphæðir séu endurskoðaðar á miðju ári.

Breytt meðhöndlun séreignar um nk. áramót. Það sem breytist er að úttekt séreignar, sem mynduð hefur verið af lágmarksiðgjaldi, mun skerða lífeyri frá TR nema hjá þeim sem byrjað hafa töku ellilífeyris fyrir áramót ’22/’23. Rætt var hvort og hvaða ráðgjöf viðkomandi lífeyrissjóðir myndu veita viðskiptavinum sínum.

Meðhöndlun fjármagnstekna hjá TR, sér í lagi húsaleigu. Helmingur tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis er skattfrjáls, en þær tekjur valda samt fullri skerðingu hjá TR frá fyrstu krónu. Nefndin taldi rétt að leita eftir því að þetta verði leiðrétt með lagabreytingu.

Heimilisuppbót og skerðingar. Það eykur á illræmdar skerðingar hjá TR að heimilisuppbót til einstæðra er sérstakur greiðsluflokkur með eigið skerðingarhlutfall upp á 11,9%. – Sem bætist ofan á 45% „grunnskerðinguna,“ þannig að skerðing hjá einbúum verður 56,9%. Í Danmörku fá einbúar einfaldlega hærri lífeyri (pensionstillæg) og skerðingarhlutfallið, þegar um það er að ræða (ca. 30%) helst óbreytt. Kjaranefndin telur dönsku aðferðina sanngjarnari og réttari.

Frestun lífeyristöku þýðir auknar skerðingar. Frestun á í orði kveðnu að hækka lífeyri um tiltekið hlutfall, því hærra sem frestunin er lengri. Reikningsaðferð TR veldur því hinsvegar að skerðingarprósentan hækkar þá líka um sama hlutfall, þannig að ávinningur af frestun verður ekki sá sem vænst er. Látið var á það reyna hvort þetta fái staðist, með kæru til Úrskurðarnefndar velferðarmála og kvörtun til Umboðsmanns Alþingis, en því miður án árangurs.
Eftir lagabreytingar 2016 er nú heimilt að fresta lífeyristöku til 80 ára aldurs (var 72 ár), en með sömu reikningsaðferðum myndi það þýða að skerðingarprósenta hjá einbúa færi úr 56,9% í 156%.