Stjórn FEB lýsir yfir sárum vonbrigðum með þau áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að grunnupphæðir lífeyris almannatrygginga eigi aðeins að hækka um 3,4% á næsta ári, samanber fjárlagafrumvarp 2019. Stjórnin telur að þetta feli í sér bæði vanefndir á viljayfirlýsingum og loforðum ráðamanna á undanförnum misserum um að bæta kjör eldri borgara, og brot á 69. grein laga um almannatryggingar.Þrátt fyrir ákvæði 69. greinarinnar um að upphæðir lífeyris og bóta almannatrygginga skuli breytast til samræmis við launaþróun, hefur grunnupphæð ellilífeyris dregist jafnt og þétt aftur úr launum á undanförnum árum. Samanburður á þróun launavísitölu og ellilífeyris sýnir, að frá 2010 hafa launin hækkað 11,4% meira en ellilífeyririnn.[1] Hann ætti samkvæmt því að vera nú kr. 266.800 á mánuði í stað 239.500 – fyrir skatt.
Þessi 3,4% hækkun fjárlagafrumvarpsins er skýrð þannig að hún taki mið af „spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu neysluverðs (2,9%) að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu.“ Í ljósi umræðunnar nú í aðdraganda kjarasamninga er það þó næsta víst að launþegahreyfingin mun ekki una því að lægstu laun hækki ekki meira en þessu nemur, – þau munu þurfa að hækka umtalsvert meira. Verði áform fjárlagafrumvarpsins að veruleika myndi því kaupmáttur lífeyris frá TR halda áfram að dragast aftur úr kaupmætti launa á næsta ári – eins og hann hefur gert mörg undanfarin ár.
Óumdeilt er að kjör þeirra eldri borgara sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu og að stór hópur þeirra dregur fram lífið undir fátæktarmörkum. Þar eru verst settir þeir sem engar aðrar tekjur hafa en ellilífeyri almannatrygginga. Í stað þess að upphæðir lífeyrisins dragist jafnt og þétt aftur úr launum ætti þróunin því að sjálfsögðu að vera í hina áttina:
Að tekin væru myndarleg skref í þá átt að hækka grunnupphæð ellilífeyrisins.
Að því hafa samtök eldri borgara unnið, m.a. með viðræðum við stjórnvöld sem látið hafa í veðri vaka að þau hafi skilning á þörf fyrir úrbætur í þessum efnum. Þeim mun meiri eru vonbrigðin þegar sömu stjórnvöld leggja nú fram fjárlagafrumvarp, sem felur í sér að ekki eigi að gera neitt raunhæft í málefnum þeirra, heldur eigi kjör þeirra að dragast enn frekar aftur úr almennum lífskjörum á næsta ári.
Stjórn FEB heitir því á Alþingi að bæta hér úr og breyta frumvarpinu í meðförum, í það minnsta þannig að hlutfallsleg rýrnun ellilífeyris á undanförnum árum verði bætt og jafnframt tryggt að lífeyririnn haldi í við launa- og verðlagsþróun, eins og kveðið er á um í 69. grein laga um almannatryggingar.
f.h. stjórnar FEB
Ellert B. Schram
formaður