Aðalfundur FEB hvetur Landssamband eldri borgara til öflugrar og eindreginnar baráttu fyrir þeim forgangskröfum sem fyrir liggja í kjarabaráttu eldra fólks.
Ályktunin er hér að neðan í heild sinni:
Ályktun aðalfundar FEB 2. mars 2023
– Tillaga –
Aðalfundur FEB 2023 lýsir yfir vonbrigðum vegna þess algera tómlætis, sem ráðamenn hafa sýnt kjörum aldraðra og kjarabaráttu á undanförnum árum. Ár frá ári hefur misgengi milli upphæða almannatrygginga og launa annarra landsmanna vaxið, þrátt fyrir lagaákvæði um að upphæðirnar skuli taka mið af launaþróun. Árlegar umkvartanir samtaka aldraðra vegna þessa hafa enga áheyrn fengið hjá landsstjórninni.
Einu breytingarnar, sem orðið hafa á lagaumhverfi opinbera lífeyriskerfisins frá 2016, þegar talsverð uppstokkun átti sér stað, eru þær að frítekjumark atvinnutekna hefur hækkað, nú síðast úr 100 þús. í 200 þús. kr. á mánuði. Upplýst var á Alþingi að sú aðgerð hefði gagnast 1.279 manns eða 3% ellilífeyristaka og aukið útgjöld vegna ellilífeyris um 0,6%. Á sama tíma hefur almenna frítekjumarkið staðið fast í 25 þús. kr./mán., sem þýðir að lífeyrir TR byrjar að skerðast um 45-56,9% um leið og greiðslur frá lífeyrissjóði skríða upp fyrir þessa smánarupphæð.
Hækkun grunnupphæða almannatrygginga í átt að launatöxtum annarra landsmanna og hækkun almenna frítekjumarksins í áföngum upp í 100 þús. kr./mán. eru því nánast sjálfgefnar forgangskröfur eldri borgara á hendur stjórnvöldum.
Íslendingar á lífeyrisaldri eru nú um 49 þúsund, þ.e. 13% þjóðarinnar og 16,7% kjósenda. Þessi stóri og vaxandi þjóðfélagshópur getur ekki látið bjóða sér að ekkert sé á hann hlustað og sjónarmiðum hans sem snúa að opinbera lífeyriskerfinu sýnt algert tómlæti.
Aðalfundurinn hvetur því Landssamband eldri borgara til öflugrar og eindreginnar baráttu fyrir þessum forgangskröfum. Í því skyni þarf LEB að virkja alla þá krafta sem þessi fjölmenni hópur býr yfir þegar hann leggur saman, en þá munu stjórnvöld ekki lengur geta vikið sér undan því að hlusta