Að loknum Alþingiskosningum.

Úrslit úr ný afstöðnum kosningum voru um margt merkilegar. Áhugavert verður að fylgjast með hvað ný ríkisstjórn mun beita sér mikið í bættum lífskjörum eldri borgara. Hafandi í huga þau kosningaloforð sem þessir flokkar sem ætla að mynda ríkisstjórn héldu á lofti.

LEB og FEB létu vel í sér heyra í kosningabaráttunni og lauk með pallborðsumræðum sem LEB hélt viku fyrir kosningar. 700 manns horfðu á útsendingu í streymi og um 100 manns voru í sal.

Fulltrúar allra flokka sem buðu sig fram á landsvísu mættu og kynntu stefnumál sín er snúa að eldri borgurum. Þarna töluðu þessir aðilar af mikilli sannfæringu um það sem betur má fara í málefnum eldri borgara og vissu hvað féll í kramið á fundinum. Minnti mig á söluræður.

Reyndin er sú að fáir flokkar höfðu gefið út á prenti eða birtu á heimasíðum sínum stefnu í málefnum eldri borgara. Aðeins tveir flokkar voru með skýr stefnumál og sundurliðuð en það var Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkurinn. Aðrir flokkar töluðu um á almennum nótum eins og tíðkast hefur á árum áður. En á þessum fundi hjá LEB var upplýst hvað flokkarnir ætluðu að framkvæma kæmust þeir til valda. Þeir flokkar sem ýmist komust ekki á þing eða voru með lítið fylgi voru með hástemmd loforð um laga þau mál þar sem skórinn kreppir er varðar eldri borgara. Fundurinn var góður og tímasetningin góð og hafi stjórn LEB þökk fyrir framtakið.

En hvað svo?
Í fréttum undanfarið virðist sem valkyrjurnar hafi látið kosningaloforð Ingu Sæland bíða þar til samstaða næst um öll önnur mál. Ingu var tíðrætt um að hætta að skattleggja fátækt og hækka skattleysismörkin í 450 þúsund krónur. Afnema verðtryggingu húsnæðislána. Nýtt almannatryggingakerfi. Leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun sem myndaðist í stjórnartíð Samfylkingarinnar þannig að kjör eldra fólks verði í samræmi við launavísitölu og svona mætti lengi telja. Allt þetta og meira til birtir Flokkur fólksins sem „Forgangsmál“ á heimasíðu sinni.

Úr því Inga Sæland hóf upp sína rödd er hún kynnti kosningaloforðin er það krafa kjósenda að hún standi við loforðin. Eða mun hún leggja meiri áherslu á að verða ráðherra og láta baráttumálin lönd og leið? Ég vona það verði ekki niðurstaðan.

Það eru spennandi dagar framundan.

Sigurður Ágúst Sigurðsson formaður FEB.