Við bíðum eftir handtakinu – Ellert B. Schram formaður FEB

Á síðasta ári var starfshópur um málefni og hagsmuni eldri borgara skipaður af ríkisstjórninni, eftir fimm mánaða bið. Hópurinn á vegum velferðarráðherra hélt fimmtán fundi og skilaði svo nánast engu, nema kannske því að staðfesta að þrjú þúsund manns byggi við fátækt, meðal eldri borgara, langt fyrir neðan lágmarksmörk. Ekki er enn að sjá né heyra neinar alvöru tillögur frá stjórnvöldum, um að samfélagið komi til móts við það fólk sem býr við fátækt. Sjálfur datt ég inn á alþingi til að eiga opinbert samtal við þá sem fara með völdin. Í þriggja mínútna ræðutíma. Í stuttu máli var mér svarað með andmælum og fullyrðingum um að „aldraðir hafi ekki setið eftir, kaupmáttur ellilífeyrisbóta hafi stórvaxið á undanförnum árum“.
Auk þess að leita í ræðustólinn, tókst mér að leggja inn skriflegar spurningar til velferðarráðherra ríkisstjórnarinnar, sem nú hefur verið svarað.
Að öðru leyti var þetta máttlaust upphlaup hjá mér, sem fulltrúi eldri borgara. Allavega meðan ekki er tekið mark á manni og ábendingar hundsaðar. Síðustu orð fjármálaráðherra voru þau „að fjármálaáætlun lýsir því síðan hvert svigrúmið er til framtíðar“. Svo mörg voru þau orð. Bíða og vona.
Stutt framsaga af minni hálfu, var þó í nafni kurteisinnar, réttlætisins og mannúðarinnar, raunar byggð á þeirri forsendu að aldraðir séu ekki útskúfaðir og mannréttindin séu í sjálfum sér nauðsynleg og sjálfsögð, þegar þrjú þúsund eldri borgarar bíða eftir aðstoð og hjálp. Sem þeir eiga inni, sem þeir eiga rétt á til að öðlast áhyggjulaust ævikvöld.
Vonbrigði okkar um eðlilegt samtal og óskir um aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins, eru réttlát og tímabær. Það er ekki nóg að sitjast á nefndarbekk, til að bíða niðurstöðunnar um ekki neitt. Það er bókstaflega skylda stjórnvalda að hlusta, skilja og gera það sem gera þarf.
Við hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni munum ekki gefast upp. Við, sem þar sitjum í stjórn og þeir, sem þar vinna, þeir sem þekkja og hafa skýrt með rökum, þá hungurlús, sem býðst þeim samborgurum okkar sem verst standa. Ef þeir þá standa og lifa það af. Veikindi, fátækt, einangrun og vanræksla er ekki eftirsótt líf. Ef ekki nægja umræður og niðurstöður um stöðuna, ef ekki er á okkur hlustað, þá verður að grípa til annarra aðgerða, hvort heldur það sé í nafni Landssambands, eða félaga eldri borgara, þá er komin tími til að bregða sverði á loft, sverði mannúðarinnar og tillitseminnar. Ef ekki næst niðurstaða með samtali og rökum, þá endar þetta ástand með uppreisn og sorg. Ég vil enn og aftur rétta þeim höndina, þeim sem ráða og hafa á valdi sínu að auka lífsgæði þeirrar kynslóðar sem á að geta notið efri áranna með reisn.
Ég bíð eftir handartakinu.

Ellert B. Schram
Formaður eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *