Baráttumál FEB

Kjör aldraðra – lokaútgáfa skýrslu dr. Hauks Arnþórssonar sem hann vann fyrir FEB í lok árs 2017.  Smelltu HÉR til að opna skýrsluna.

Samþykkt aðalfundar 2019

Samþykkt aðalfundar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um skerðingu almannatrygginga

Aðalfundur FEB 19. febrúar 2019 fagnar framkominni kröfu stéttarfélaga og sambanda innan ASÍ um að stigið verði ákveðið skref til  lækkunar á skerðingu  almannatrygginga úr 45% í 30% vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Sú óréttláta skerðing sem viðgengst í dag á sér ekkert fordæmi í þeim löndum sem við berum okkur saman við og stuðlar að fátækt meðal eldri borgara og rýrir traust á lífeyrissjóðum.

Einnig leggur fundurinn áherslu á að tryggður verði jöfnuður milli  lífeyrisþega gagnvart almannatryggingum, vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum sem tilkominn er vegna skylduiðgjalds, hvort sem lífeyrir kemur úr samtryggingu eða séreign.

Fundurinn leggur allt  traust sitt á að ASÍ  fylgi kröfunni fast eftir í viðræðum við stjórnvöld og ekki verði hvikað frá henni fyrr en ásættanleg niðurstaða fæst.

Ályktanir aðalfundar 2015 um kjaramál

  • Lífeyrisþegar eiga inni 30 milljarða hjá ríkinu
  • Skerðing tryggingabóta vegna lífeyrissjóðs verði stöðvuð
  • Neyslukönnun: Vantar 129 þús. kr. á mánuði
  • VSK af lyfjum verði afnuminn
  • Komugjöld í heilbrigðiskerfi afturkölluð
  • Sjúkrahúsvist verði áfram gjaldfrjáls
  • Eldri borgarar njóti fullra mannréttinda
  • Borgin lækki gjaldskrár fyrir aldraða
  • Boðuð hækkun á lífeyri standi

Tillögur um kjaramál

Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, haldinn 20. febrúar 2015 samþykkir eftirfarandi:

Lífeyrisþegar eiga inni 30 milljarða hjá ríkinu.
„Aðalfundurinn bendir á, að ríkisstjórnin er aðeins búin að framkvæma lítinn hluta þeirra kosningaloforða, sem öldruðum og öryrkjum voru gefin fyrir síðustu alþingiskosningar. Eftir er að framkvæma stærsta kosningaloforðið við lífeyrisþega, þ.e. að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans en það kostar 17 milljarða að framkvæma það loforð. Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja vegna laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá 1. júlí 2009 kostaði lífeyrisþega aðra 17 milljarða á tímabilinu 2009-2013. Aldraðir og öryrkjar hafa aðeins fengið brot af þeirri kjaraskerðingu til baka eða 4,4 milljarða. Lífeyrisþegar eiga því eftir að fá 12,6 milljarða af þeirri kjaraskerðingu. Alls eiga því Lífeyrisþegar eftir að fá tæpa 30 milljarða í bætur. Aðalfundurinn krefst þess, að aldraðir og öryrkjar fái þessar bætur strax. Lífeyrisþegar geta ekki beðið.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2013 var samþykkt að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi 1.júlí 2009 yrði afturkölluð. Ennfremur var samþykkt að lífeyrir aldraðra og öryrkja yrði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra á krepputímanum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var samþykkt að sú kjaraskerðing ,sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1.júlí 2009 yrði tafarlaust afturkölluð. Einnig var samþykkt á landsfundinum, að leiðrétta ætti kjaragliðnun krepputímans. Í bréfi, sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sendi kjósendum 2013 segir svo m.a.: “ Við ætlum að afnema tekjutengingu ellilífeyris.”

Af þessum tilvitnunum er ljóst, að stjórnarflokkarnir lofuðu því fyrir kosningar af afturkalla ALLA kjaraskerðinguna frá 2009. Og þeir hétu því einnig að leiðrétta kjaragliðnun krepputímans. Fyrirheit Bjarna Benediktssonar um að afnema eigi tekjutengingu ellilífeyris þýðir það, að afnema á skerðingu tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og allar skerðingar lífeyris vegna annarra tekna.“

Skerðing tryggingabóta vegna lífeyrissjóðs verði stöðvuð.

Aðalfundurinn álítur að afnema eigi skerðingu tryggingabóta aldraðra hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Fundurinn minnir á, að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því, að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar. Ekki var reiknað með því, að greiðslur úr lífeyrissjóðum mundu skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum. Í dag er skerðingin svo mikil að óánægjan með hana ógnar lífeyrissjóðunum og almannatryggingum. Enda þótt ákvörðun um skerðingu tryggingabóta aldraðra hafi verið tekin af alþingi og stjórnvöldum láta margir lífeyrisþegar óánægju sína bitna á lífeyrissjóðunum. Skerðing tryggingabóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði er mjög mikil. Þetta er mikið ranglæti og þetta verður að leiðrétta. Kjaranefnd skorar á ríkisstjórn og alþingi að afnema þessar skerðingar. Ef það þykir of kostnaðarsamt að afnema skerðingarnar í einum áfanga má gera það í 2-3 áföngum.

Neyslukönnun: Vantar 129 þús. kr. á mánuði.

„Aðalfundurinn telur, að við ákvörðun um lífeyri aldraðra frá almannatryggingum eigi að miða við neyslukönnun Hagstofunnar. Samkvæmt henni eru meðaltalsútgjöld einhleypinga til neyslu 321 þús. kr. á mánuði. Engir skattar eru innifaldir í þeirri tölu. Lífeyrir einhleypra eldri borgara frá almannatryggingum er 192 þús. kr. á mánuði eftir skatt, hjá þeim, sem hafa einungis tekjur frá TR. mismunurinn er 129 þús. kr. á mánuði. Fundurinn telur að jafna eigi þennan mun í þremur áföngum, á þremur árum, þannig að lífeyrir hækki um 43 þús. kr. í hverjum áfanga. Fyrsti áfangi gæti komið til framkvæmda um næstu áramót. Kjaranefndin skorar á félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016, að þessi leiðrétting á lífeyri aldraðra ( hækkun um 43 þús. kr á mánuði) komi til framkvæmda um næstu áramót.“

VSK af lyfjum verði afnuminn.

Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórnina að fella niður virðisaukaskatt á lyfjum. Verð á lyfjum er svo hátt, að margir eldri borgarar eiga erfitt með að leysa út lyf sín og sumir aldraðir hafa alls ekki efni á að kaupa lyf. Brýna nauðsyn ber til þess að lækka lyfjaverð. Afnám virðisaukaskatts af lyfjum er besta leiðin til þess. Virðisaukaskattur á lyfjum er 24 % hér á landi. Það er hærra en í nokkru öðru Evrópulandi. Í Svíþjóð er enginn virðisaukaskattur á lyfjum og í Finnlandi er virðisaukaskattur á lyfjum 8%. Á hinum Norðurlöndunum er virðisaukaskattur á lyfjum nálægt því sem hér er. Í Bretlandi er enginn virðisaukaskattur á lyfjum, í Frakklandi er skatturinn 2,1%, í Sviss og Austurríki 2,5% og á Spáni 4%. Eldri borgarar nota mikið af lyfjum og því mundi það verða góð kjarabót fyrir aldraða, ef þeir gætu keypt lyfin án virðisaukaskatts. Ríkisvaldið þarf að stuðla að því, að eldri borgarar geti fengið lyf á viðráðanlegu verði.-.

Komugjöld í heilbrigðiskerfi afturkölluð.

Aðalfundurinn samþykkir eftirfarandi:
„Ríkisstjórnin hefur hækkað svo mikið komugjöld í heilbrigðiskerfinu og dregið svo mjög úr niðurgreiðslum á nauðsynlegum hjálpartækjum aldraðra, að þær takmörkuðu kjarabætur, sem aldraðir og öryrkjar hafa fengið að undanförnu hafa verið teknar til baka. Dregið hefur verið stórlega úr niðurgreiðslum á öryggishnöppum með þeim afleiðingum að leiga fyrir afnot af þessum nauðsynlegu öryggistækjum eldri borgara hefur hækkað um 89%. Allar þessar hækkanir eru sem hnefahögg í andlit aldraðra og öryrkja.

Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík ítrekar áskorun sína á heilbrigðisráðherra um að afturkalla hækkanir á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi í ársbyrjun 2014 svo og áskorun á ráðherra um að afturkalla hækkanir á ýmsum stoðtækjum og hjálpartækjum, sem nauðsynleg eru fyrir aldraða til þess að geta dvalist í heimahúsum í stað þess að fara á hjúkrunarheimili“.

Sjúkrahúsvist verði áfram gjaldfrjáls.
„Aðalfundurinn varar við ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um breytingar á heilbrigðisþjónustunni, sem geta stóraukið útgjöld eldri borgara, öryrkja og lágtekjufólks í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra hefur boðað frumvarp um eitt niðurgreiðslu-og afsláttarkerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu ( lyf innifalin). Í frumvarpinu verður lagt til, að fella læknis,-lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunarkostnað og annan kostnað við heilbrigðisþjónustu undir eitt niðurgreiðslu og afsláttarfyrirkomulag. Sett verði þak á þátttöku einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu, hvort sem kostnaður fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu. Rætt hefur verið um, að umrætt þak verði 120 þús. kr. Ef meiningin er, að kaupendur heilbrigðisþjónustu verði að greiða allan heilbrigðiskostnað utan eða innan heilbrigðisstofnana þar til umræddu þaki er náð, mundi það verða öldruðum, öryrkjum og lágtekjufólki um megn. Almenningur yrði þá að greiða fyrir sjúkrahúsvist þar til 120 þús. markinu væri náð. Það gæti leitt til þess, að hinir efnaminni yrðu að neita sér um sjúkrahúsvist. Aðalfundurinn mótmælir harðlega öllum ráðagerðum í þessa átt og krefst þess, að almenningur eigi áfram kost á gjaldfrjálsri sjúkrahúsþjónustu“.

Eldri borgarar njóti fullra mannréttinda.
Aðalfundurinn samþykkir eftirfarandi:

„Samkvæmt stjórnarskránni eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og allir eiga að njóta mannréttinda. Í lögum um málefni aldraðra segir, að aldraðir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins. Mikill misbrestur hefur verið á því, að þessum lagaákvæðum hafi verið framfylgt. Rannsóknir leiða í ljós, að biðtími aldraðra eftir meðferð á sjúkrastofnunum er lengri en þeirra sem yngri eru. Í launa-og kjaramálum hafa eldri borgarar sætt annarri meðferð en aðrir launþegar. Kjörum eldri borgara hefur verið haldið niðri og þau skert á sama tíma og láglaunafólk hefur fengið kjarabætur. Embættismenn og alþingismenn hafa fengið leiðréttingu á kjörum sínum afturvirkt á sama tíma og kjör aldraðra hafa verið fryst. Eldri borgurum hefur því verið mismunað freklega. Mannréttindi hafa ítrekað verið brotin á þeim. Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi árið 2009, var brot á mannréttindum og hið sama er að segja um kjaragliðnun krepputímans“.

Borgin lækki gjaldskrár fyrir aldraða.

„Aðalfundurinn skorar á Reykjavíkurborg að lækka gjöld fyrir þjónustu, sem borgin veitir eldri borgurum. Talsverð hækkun hefur orðið á þessum gjöldum síðustu árin. Þessar gjaldskrárhækkanir koma mjög illa við eldri borgara. Enda þótt ekki hafi verið um mjög miklar hækkanir að ræða er hækkunin mjög tilfinnanleg fyrir láglaunafólk meðal aldraðra. Gjald fyrir félagslega heimaþjónustu er hóflegt og þeir ellilífeyrisþegar, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum, geta fengið lækkun á gjaldi fyrir heimaþjónustu. Heimahjúkrun er gjaldfrjáls. Þar er um mjög mikilvæga þjónustu að ræða og allir eldri borgarar, sem þurfa á heimahjúkrun að halda, geta notið hennar án tillits til efnahags.

Fundurinn skorar á Reykjavíkurborg að gera átak í byggingu hjúkrunarheimila. Biðlisti eftir rými á þessum heimilum er mjög langur í dag, að lágmarki 4 mánuðir en getur í vissum tilvikum orðið miklu lengri. 300 eru nú á biðlista eftir hjúkrunarheimilum í Reykjavík. Það vantar nokkur ný hjúkrunarheimili á Stór-Reykjavíkursvæðinu en auk þess á eftir að breyta fjölbýlisherbergjum margra eldri hjúkrunarheimila í einbýli til þess að uppfylla það stefnumið stjórnvalda, að allir eldri borgarar, sem þurfa á hjúkrunarrými að halda, geti verið í einbýli. Jafnframt því, sem byggð verða fleiri hjúkrunarheimili, þarf að efla heimahjúkrun til þess að eldri borgarar geti verið sem lengst í heimahúsum, á meðan heilsa leyfir. Kjaranefndin fagnar viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og velferðarráðuneytisins um að fjölga hjúkrunarrýmum á tímabilinu fram til 2020.

Reykjavíkurborg leitar nú eftir því að verða tilnefnd aldursvæn borg hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.Með hliðsjón af því stefnumáli borgarinnar þarf borgin að bæta kjör og aðstöðu eldri borgara. Í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017 segir, að borgin vilji stuðla að fjölbreyttu framboði af námskeiðum og afþreyingu fyrir eldri borgara. Borgin verður að tryggja að þessi þjónusta sé á viðráðanlegu verði fyrir eldri borgara“.

Boðuð hækkun á lífeyri stand

„Aðalfundurinn mótmælir því harðlega að ríkisstjórnin skyldi lækka boðaða hækkun lífeyris aldraðra frá TR úr 3,5% í 3% um síðustu áramót. Hér er um að ræða hækkun bóta vegna verðlagsbreytinga. Með hliðsjón af því að stjórnarflokkarnir skulda lífeyrisþegum leiðréttingu á lífeyri almannatrygginga vegna kjaragliðnunar á krepputímanum og með því að nokkur atriði kjaraskerðingar frá 2009 eru óuppgerð lýsir það mjög neikvæðri afstöðu stjórnvalda til lífeyrisþega að skera lífeyrinn niður um hálft prósentustig frá því, sem lagt var til í fjárlagafrumvarpinu. Eðlilegt hefði verið að ríkisstjórnin hækkaði lífeyri aldraðra og öryrkja verulega um síðustu áramót til þess að hefja leiðréttingu lífeyris“.

febrúar 2015

Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík
Björgvin Guðmundsson, formaður