Fjármál og fjáröflun

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fær lang stærstan hluta af tekjum sínum í gegnum aðildargjöld félagsmanna. Töluvert minni hluti teknanna er ágóði af sölu jólakorta, en skiptir þó félagið miklu máli. Tæplega 1 % árlegra tekna félagsins kemur síðan sem styrkur frá Reykjavíkurborg, sem þó innheimtir nánast sömu upphæð í fasteignagjöld af félaginu vegna húseignarinnar að Stangarhyl 4. Aðrar tekjur eru t.d. tekjur af útleigu salarins á 2. hæð, tekjur af félagsstarfseminni í salnum og af sumarferðum félagsins. Kostnaðurinn við síðastnefndu liðina er þó oft á tíðum jafn hár og tekjurnar, enda er einungis stefnt að því að hafa fyrir launum starfsmanna og kostnaði við rekstur hússins með þeirri gjaldtöku sem þar er stunduð.
Reglulegur rekstur félagsins gengur all vel fjárhagslega en vaxtakostnaður vegna bankaláns sem tekið var við kaup á húsinu árið 2005 gerir það að verkum að félagið hefur verið rekið með tapi undanfarin ár. Í fyrsta skipti á mörg ár var nokkur hagnaður af starfsemi félagsins árið 2012. Þetta varð einnig raunin árið 2013 en þá voru heildargjöldin 72,5 milljónir en heildartekjurnar 79,3 milljónir.
Algjör umskipti hafa orðið í allri starfsemi og öllum rekstri félagsins frá árinu 2014 eins og glögglega sést í neðangreindum ársreikningum áranna 2015 og 2016 þar sem afkoma ársins 2015 er jákvæð um 16 milljónir króna.