Orðsending frá stjórn til félagsmanna

Stjórn Félags eldri borgara fundaði í kvöld og sendi í kjölfarið frá sér meðfylgjandi bréf til félagsmanna sinna.
 

  • Í bréfinu kemur m.a. fram að stjórnin harmar mjög að kostnaðarverð hafi reynst hærra en áætlað kaupverð íbúðanna og þau vandkvæði sem það hefur valdið verðandi íbúum í Árskógum.
  • Þá kemur fram að áfram hafi verið fundað með kaupendum íbúða við Árskóga í dag. Í kjölfarið hafi lyklar verið afhentir að fjórum íbúðum til viðbótar.
  • Alls hafa nú kaupendur 17 íbúða af 23, sem fundað hefur verið með, samþykkt skilmálabreytinguna.
  • Þá er í bréfinu reifað það sjónarmið að þegar um sé að ræða óhagnaðardrifið verkefni sem þetta þar sem lagt sé saman í púkk til að byggja fyrir hópinn, þá sé eðlilegt að kostnaðaraukanum sé dreift jafnt rétt eins og ávinningnum sem fæst með slíku fyrirkomulagi.
  • Tekið er fram að verðið sem farið er fram á miðast áfram við kostnaðarverð íbúðanna.
  • Þá kemur fram að stjórn vinni nú hörðum höndum að því að leysa úr málinu og að félagsmenn verði upplýstir jafn óðum. Þá verði boðað til félagsfundar þar sem rætt verði um málið síðar í þessum mánuði.


 
 
Kæru félagsmenn FEB,
 
Hér koma upplýsingar um vinnu stjórnar félagsins í tengslum við úrlausn á málefnum kaupenda íbúða, sem félagið reisir nú við Árskóga, vegna þess að framkvæmdakostnaður reyndist meiri en áætlað var í upphafi.
 
Eftir fundi sem Félag eldri borgara átti í dag með kaupendum íbúða að Árskógum liggur fyrir að lyklar að fjórum íbúðum til viðbótar yrðu afhentir í kvöld. Alls er búið að eiga slíka fundi með 23 kaupendum og eru 17 þeirra búnir að samþykkja aukagreiðslu vegna hærri byggingarkostnaðar. Fjórir hafa viljað skoða málið frekar og leita ráðgjafar um stöðu sína. Lögmenn tveggja kaupanda hafa sent félaginu bréf um að þeir íhugi að leita til dómstóla.
 
Kaupendur hafa almennt sýnt málinu skilning þó að óneitanlega sé slæmt fyrir fólk að fá óvæntan bakreikning sem þennan.
Tilgangurinn að bregðast við húsnæðisvanda og lágmarka verð Rétt er í upphafi að rifja upp hvernig þessi framkvæmd kom til. Félag eldri borgara í Reykjavík er ekki að koma að byggingu íbúða í fyrsta sinn. Til að mynda reisti það á tíunda áratugnum og undir lok þess níunda, ríflega 400 íbúðir á sex stöðum í Reykjavík sem seldar voru félagsmönnum til að bregðast við húsnæðisskortinum sem þá ríkti.
Mikill skortur, sem aftur hefur einkennt húsnæðismarkaðinn í Reykjavík á síðustu árum, varð til þess að félagið vildi bregðast við og aðstoða eldri borgara við að eignast íbúðir á hagstæðu verði. Reykjavíkurborg úthlutaði félaginu lóð undir fjölbýlishús við Árskóga í Mjódd og í kjölfarið var farið af stað.
 
Nærtækt að horfa á verkefnið sem byggingarfélag kaupenda íbúðanna Verkefnið var að reisa íbúðir fyrir félagsmenn FEB og selja þeim á kostnaðarverði. Ólíkt hefðbundnum fasteignafélögum, sem byggja og selja íbúðir á markaði í þeim tilgangi að græða á þeim, var hér um að ræða óhagnaðardrifna framkvæmd sem félagið stóð að til hagsbóta fyrir sína félagsmenn. Félagið útvegaði lóðina, gaf félagsmönnum kost á að sækja um íbúðir og samdi við byggingarfyrirtæki.
Nærtækast er því kannski að horfa á verkefnið sem eins konar byggingarfélag þeirra sem hyggjast kaupa íbúðirnar. Segja má að félagsmenn hafi falið félaginu að reisa íbúðir sem einstaka félagsmenn höfðu áhuga á að kaupa á kostnaðarverði. Í ljósi reynslunnar var ljóst að áhugi væri mikill.
Ef horft er á málið með þessum hætti, sem eins konar byggingarfélag aðila sem leggja saman í púkk til að byggja fyrir hópinn, þá er eðlilegt að kostnaðaraukanum sé dreift jafnt rétt eins og ávinningnum sem fæst með slíku fyrirkomulagi. Það er ákvörðun hvers og eins hvort þeir sætti sig við þessar breyttu forsendur. Tekið skal fram að verðið sem nú er farið fram á miðast áfram við kostnaðarverð íbúðanna.
 
Félag eldri borgara selur félagsmönnum á kostnaðarverði FEB byggir afkomu sína nær alfarið á félagsgjöldum. Tilgangur og starfsemi félagsins; svo sem að berjast fyrir hagsmunum eldri borgara, stuðla að félagslegri virkni þeirra og velferð, væri stefnt í voða, ef félagið lendir í erfiðum og löngum málaferlum við félagsmenn sína. Mikilvægt er að árétta að það kostnaðarverð sem viðkomandi félagsmönnum býðst að kaupa íbúðirnar á nú er metið 10-14% undir markaðsverði sambærilegra íbúða. Þá hefur stjórn félagsins ákveðið að aflétta kvöð um áframsölu íbúða. Kaupendur hafa því nokkra kosti til að tryggja hagsmuni sína gagnvart þessari þróun mála.
 
Af ummælum lögmanna, sem fallið hafa í fjölmiðlum síðustu daga, má ráða að þeir líti svo á að um hefðbundin fasteignaviðskipti sé að ræða. Málið er þó ekki alveg svo einfalt, eins og rakið hefur verið hér að framan. Þegar framkvæmdir hófust lá fyrir listi með nöfnum rúmlega fjögur hundruð félagsmanna sem lýstu yfir áhuga. Þannig gat félagið fengið lánsloforð frá bankanum sem þurfti til framkvæmdarinnar. FEB tók að sér hlutverk milliliðar án nokkurrar þóknunar í samræmi við markmið og tilgang félagsins.
 
Heildarkostnaður við að reisa fjölbýlishúsin tvö við Árskóga nemur röskum fjórum milljörðum króna. Kostnaðurinn verður 401 milljón hærri en gert var ráð fyrir þegar að kaupsamningar voru gerðir.
 
Við munum áfram halda félagsmönnum upplýstum um gang mála. Boðað verður til félagsfundar síðar í þessum mánuði þar sem stjórn og byggingarnefnd munu sitja fyrir svörum.
 
Stjórn félagsins fundaði í kvöld til að fara yfir stöðu mála. Stjórnin vill ítreka að hún harmar mjög að endanlegt kostnaðarverð hafi reynst hærra en áætlað söluverð íbúðanna og þau vandkvæði sem það hefur valdið verðandi íbúum í Árskógum.
 
Félagið vinnur hörðum höndum að því að leysa úr málinu.
 
 
Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *