Íbúðir byggðar af FEB Félagi eldri borgara í Reykjavík

Ekki er tekið við umsóknum um íbúðir á vegum FEB á skrifstofu félagsins.

Sala á íbúðum í Árskógum 1-3 stendur nú yfir og er þar farið eftir reglum stjórnar, samþykktum í ágúst 2017. Lokað var fyrir að setja nafn sitt á lista „yfir áhugasama” í júní 2018.

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur í gegnum tíðina byggt 409 íbúðir en þær eru Grandavegur 47, Eiðismýri 30, Árskógar 2-8, Hraunbæ 103-105, Hólaberg 84, Skúlagata 20 og Skúlagata 40

Árskógar 1-3
Íbúðir Félags eldri borgara við Árskóga 1-3 verða á bilinu 65-130 m2 að stærð og er gert ráð fyrir að þær verði tilbúnar til afhendingar sumarið 2019. Verið er að úthluta íbúðunum 68 en um 460 einstaklingar sýndu áhuga á að kaupa þær.
„Þessi mikli áhugi sýnir að þörfin fyrir hentugar íbúðir fyrir þennan aldurshóp er mikil,“ segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara. Hann segir að sem fyrr hafi íbúðunum verið úthlutað eftir þeim stigum sem umsækjendur höfðu áunnið sér samkvæmt reglum félagsins.
Gísli segir svæðið í Suður Mjódd kjörið til áframhaldandi uppbyggingar á íbúðum fyrir þennan aldurshóp. Í næsta nágrenni er þjónustumiðstöð og því þurfi ekki að ráðast í uppbyggingu á frekari innviðum þótt íbúum fjölgi á svæðinu.

„Við höfum ekki farið leynt með að við viljum mjög gjarnan fá að halda áfram uppbyggingu á þessu svæði og rennum hýru auga til óbyggðra lóða hér í Breiðholtinu. Félag eldri borgara þarf fleiri lóðir til að geta haldið áfram að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir félagsmenn sína.“

Topp íbúðir á Topp stað í Reykjavík

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur tekið ákvörðun um að byggja tvær einingar af íbúðum í Mjódd fyrir félagsmenn sína en FEB hefur fengið lóð við Árskóga 1-3. Fyrirhuguð bygging mun rísa á næsta ári ef allt gengur vel. Hugað verður að fjármögnun, uppgreftri og teikningum nú á haustmánuðum. Nú þegar hefur álitlegur hópur skráð sig á lista yfir áhugasama til að kaupa íbúð í þessum húsum. Staðsetningin er ein sú besta í borginni. Stutt er í alla þjónustu í Mjódd og síðan er félagsstarf í Árskógum þar sem möguleiki er á hádegismat og annarri aðstöðu. Stjórn FEB hefur staðfest að fara í þetta verkefni. Bygginganefnd hefur verið skipuð og eru í henni Þorbergur Halldórsson formaður, Anna Þrúður Þorkelsdóttir, Brynjólfur I. Sigurðsson, Gunnar Björnsson, Stefán Benediktsson auk framkvæmdastjóra FEB Gísla Jafetssonar. Byggingarnefnd hefur haldið nokkra fundi til undirbúnings málinu, unnið er að teikningum og stefnt er að formlegri undirritun og vali á verktökum nú á haustmáuðum. Markmið nefndarinnar er að byggðar verði vandaðar íbúðir á hagkvæman hátt fyrir félagsmenn og þannig verði unnið samkvæmt lögum FEB þar sem kveðið er á um úrbætur í húsnæðismálum.

Þess má geta að nú þegar hafa verið byggðar rúmlega 400 íbúðir sem eingöngu er ætlaðar félagsmönnum FEB. Íbúðir þessar er vinsælar og segja okkur fasteignasalar að slegist sé um þær íbúðir sem koma í sölu. Enda vandað til í byrjun og svo er að sjálfsögðu einnig með þær íbúðir sem nú eru í byggingu í Suður Mjódd.

Samningur um byggingar fyrir félagsmenn í Suður-Mjódd

Þann 24. mars 2017 undirrituðu FEB og MótX viljayfirlýsingu um að MótX taki að sér byggingu tveggja fjölbýlishúsa auk bílskýlis fyrir félagsmenn FEB við Árskóga 1-3 í Suður-Mjódd. Á myndinni undirrita, viljayfirlýsinguna þeir Ellert B. Schram og Þorbergur Halldórsson, fyrir hönd FEB og Svanur Karl Grjetarsson og Vignir S. Halldórsson fyrir hönd MótX.
Auk þeirra eru á myndunum aðrir fulltrúar í byggingarnefnd FEB þeir, Brynjólfur I. Sigurðsson, Gunnar S. Björnsson, Stefán Benediktsson og Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri FEB.

Þinglýstar kvaðir á íbúðum byggðum af FEB:

 1. Íbúðirnar má aðeins selja félagsmönnum í Félagi eldri borgara (FEB), sem eru 60 ára eða eldri og í íbúðunum mega ekki aðrir búa en þeir og makar og uppkomin börn þeirra, nema stjórn FEB samþykki undanþágu frá því um stundarsakir, t.d. vegna fjölskylduástæðna eigenda.
 2. Íbúðareiganda er heimilt að leigja íbúð sína öðrum félögum í FEB, enda fullnægi leigutaki skilyrðum 1. töluliðar hér að ofan.
 3. Stjórn FEB sker úr um hvort væntanlegur kaupandi eða leigutaki fullnægi ofangreindum skilyrðum.
 4. Hljóti maki skráðs íbúðareiganda eða sambýlismaður/kona íbúð í arf eða við búskipti er honum heimili yfirtaka íbúðarinnar, búseta í henni og notkun, með þeim takmörkunum sem í 1. og 2. tölulið greinir, að undanskildu aldurskilyrðinu fyrir eigandann sjálfan.
 5. Erfingjum íbúðareiganda er heimilt eignarhald á íbúð fyrir arftöku, enda sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. töluliðar um notkun.

Ofangreindar kvaðir gilda um eftirfarandi hús:

 • Grandavegur 47 – byggt 1988-1989 (72 íbúðir)
 • Skúlagata 40, 40a og b – byggt 1989-1991 (64 íbúðir)
 • Hraunbær 103 – byggt 1990-1991 (47 íbúðir)
 • Árskógar 6 og 8 – byggt 1991-1993 (101 íbúð)
 • Eiðismýri 30 – byggt 1994-1995 (26 íbúðir)
 • Skúlagata 20 byggt – 1996-1998 (76 íbúðir)

  Aðrar en svipaðar kvaðir gilda fyrir íbúðir sem byggðar hafa verið á vegum félagsins við Hólaberg – Fagraberg.

  Þar er m.a. kveðið á um aldursmörk 67 ára og reglur er varðar útreikning verðs við sölu eignar. Kvaðir þessar voru kynntar upprunalegum kaupendum og koma fram í gögnum við sölu þeirra í upphafi.
  Söluverð íbúðar má aldrei vera hærra en kostnaðarverð hennar, að viðbættri verðhækkun sk. vísitölu byggingarkostnaðar, en að frádreginni hæfilegri fyrningu eða 2% á ári.
  Þinglýsingardómara ber að ganga úr skugga um lögmæti þeirra gagna sem tekin eru til þinglýsingar.

HÉR er fjallað um uppbyggingu íbúða í Reykjavík m.a við Árskóga – sjá bls. 27 og 28.

Minnisblað

Yfirlit um húsnæðismál eldri  borgara í Reykjavík

Efni: Mannfjöldaþróun, þarfagreining vegna uppbyggingarstefnu Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum m.t.t. þjónustuíbúða eldri borgara, þróun biðlista eftir þjónustu- og öryggisíbúðum sem velferðarsvið úthlutar í 2010 – 2014 og framtíðarsýn varðandi húsnæði fyrir eldri borgara.

Fundur borgarstjóra um uppbyggingu í Suður Mjódd 
Eftir kynningu var fundargestum boðið að bera upp fyrirspurnir og bar þar hæst óskir um fjölgun íbúða fyrir aldraða.
Framsögu borgarstjóra og umræður á fundinum má sjá í heild sinni á upptöku frá fundinum.
Nánari upplýsingar: