Fasteignagjöld 2018 í Reykjavík

Margir spyrja FEB um fasteignagjöldin og álagningu þeirra.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðir var lækkað um 10% vegna ársins 2018, úr 0,2% í 0,18%.
Afsláttur í upphafi árs 2018 er ákvarðaður eins og afsláttur 2017 endaði en sá útreikningur er byggður á framtölum ársins 2017 vegna tekna 2016. Sjá HÉR vegna tekjuviðmiða afsláttar fyrri ára, m.a. ársins 2017. Afsláttur ársins 2018 verður endurákvarðaður í haust eftir álagningu RSK vegna ársins 2018 samkvæmt framtölum 2018 vegna tekna ársins 2017, sjá HÉR um afslátt ársins 2018.

Ný tekjuviðmið vegna 2018 eru mun hærri en verið hefur og er reiknað með verulegri fjölgun afsláttarþega í haust.
Tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem fengu lækkun á fasteignaskatti og fráveitugjaldi á liðnu ári, fá einnig að óbreyttu lækkun fasteignaskatts og fráveitugjalds fyrir árið 2018 að teknu tilliti til tekju- og eignaviðmiða. Fjármálaskrifstofa framkvæmir breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð skattframtala elli- og örorkulífeyrisþega. Það þarf því ekki að sækja sérstaklega um lækkun eða niðurfellingu þessara gjalda. Við álagningu fasteignagjalda í janúar verður afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða miðaður við tekjur ársins 2016. Þegar álagning vegna tekna ársins 2017 liggur fyrir haustið 2018, verður afslátturinn endanlega ákvarðaður og verða þá allar breytingar tilkynntar bréflega.
Skilyrði lækkunar eru að viðkomandi sé elli- eða örorkulífeyrisþegi, sé þinglýstur eigandi fasteignar, eigi þar lögheimili og geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt.
Einungis er veitt lækkun vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
Nánar HÉR

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *