Alger forsenda þess að fá varanlega dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili eða skammtímadvöl til hvíldar eða endurhæfingar er að sótt hafi verið um það til Færni- og heilsufarsmatsnefndar, og að nefndin hafi metið umsóknina og komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandi sé þurfandi fyrir einhver af framangreindum úrræðum. Færni- og heilsufarsmatsnefnd hefur því tekið við því hlutverki, sem áður var í umsjá tveggja svonefndra „vistunarmatsnefnda“ hvar af önnur lagði mat á dvöl á hjúkrunarheimili og hin dvalarheimili. Samkvæmt gildandi reglum sér Færni- og heilsufarsmatsnefnd um að leggja mat á þörf fyrir alla þá aðhlynningu og þann aðbúnað sem hér hafa verið nefnd.
Átta umdæmi.

Samkvæmt skipaninni er landinu skipt upp í 8 umdæmi og eru Færni- og heilsufarsnefndir starfandi í öllum þessum umdæmum – ein í hverju þeirra. Á Reykjavíkursvæðinu er þannig starfandi ein nefnd og er henni ætlað að fjalla um umsóknir allra þeirra, sem lögheimili eiga á höfuðborgarsvæðinu. Í nefndinni sitja sex einstaklingar, sem allir eru með sérmenntun á sviði heilbrigðis- og félagsmála – læknar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Hér eftir verður aðeins fjallað um nefndina, sem starfar á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsstöð.

Nefndin skiptir með sér verkum þannig að þrír nefndarmanna fjalla um umsóknir um varanlega dvöl – þ.e.a.s. dvöl á hjúkrunarrýmum og á dvalarheimilum. Hinir þrír nefndarmennirnir meta þörfina fyrir skammtíma endurhæfingu og hvíldarinnlagnir. Aðsetur nefndarinnar er á heilsugæslustöðinni við Þönglabakka 1 í Reykjavík. Þar starfa auk nefndarmanna þrír starfsmenn nefndarinnar. Starfsmennirnir hafa reglulegan símatíma milli klukkan 11 og 12 alla virka daga. Síminn er 5851300.

Upplýsingar og undirbúningur.

Starfsmenn svara öllum fyrirspurnum, sem lúta að starfsemi Færni- og heilsufarsmatsnefndar. Þar á meðal er þeim ætlað að svara fyrirspurnum um frágang og ferli umsókna og um afgreiðsluferil þeirra. Starfsmennirnir sjá jafnframt um að kalla eftir öllum heilsufars- og félagslegum upplýsingum um umsækjanda m.a. með því að leita upplýsinga um heilsufar frá heilsugæslustöðvum, sérfræðilæknum, sjúkrahúsum og félagsmiðstöðvum. Rétt er þó að leggja áherslu á að umsækjendur sjálfir og aðstandandendur þeirra bendi eins og framast er kostur á umsagnaraðila, lækna, hjúkrunarfólk og stofnanir, sem hafa haft umsækjanda til meðferðar eða aðhlynningar. Ítarlegar upplýsingar af því tagi – ekki bara um heilsufar heldur ekkert síður um andlega erfiðleika svo sem kvíða, einangrun, geðbrigði eða taugasjúkdóma sem og um líkamlega færni og hreyfigetu – geta auðveldað matið og aukið líkurnar á jákvæðri niðurstöðu. Einnig getur auðveldað matið ef gefnar eru upplýsingar um hvort og þá að hve miklu leyti aðstandendur eða vinir hafa þurft að sinna umsækjanda reglulega svo sem varðandi aðbúnað og umhirðu. Margir halda, að slíkar upplýsingar um aðhlynningu ættingja eða vina geti torveldað það, að umsækjandi fáist metinn í þörf fyrir önnur og varanlegri úrræði. Það er misskilningur. Þvert á móti greiðir það fyrir því að sem réttast mat sé lagt á þarfir umsækjandans.

Afgreiðsla umsókna.

Þegar gengið hefur verið frá umsókninni og starfsmenn Færni- og vistunarmatsnefndar hafa lokið innköllunum á öllum upplýsingum frá heilbrigðisstarfsfólki, meðferðar- og umsýslustofnunum og félagsmálastofnunum og – starfsmönnum og fengið allar upplýsingar, sem umfram eru og máli skipta frá ættingjum og vinum er fullbúin umsókn lögð fyrir Færni- og heilsufarsmatsnefndina. Að jafnaði tekur það um fjórar vikur að ljúka við matið eftir að fullbúin umsókn hefur borist nefndinni. Ef töf verður á uað umsagnir berist lengist tíminn að sama skapi, en starfsmenn nefndarinnar ýta á eftir umsögnum eins og kostur er. Áhersla er lögð á, að starfsmenn nefndarinnar veita í daglegum símatíma upplýsingar um gang mála – bæði við frágang umsóknar og um ferlið eftir að umsókn er fullbúin.

Gildistími.

Þegar jákvætt mat hefur fengist gildir það í 12 mánuði. Á þeim tíma er ætlast til þess að umsækjandi hafi fengið þá dvöl, sem Færni- og heilsufarsnefnd hefur talið þörf á. Hafi það ekki gerst á 12 mánaða tímabili fellur matið úr gildi og þarf þá að endurtakast. Mjög sjaldgæft er að slíkt gerist – getur þó komið fyrir en í mjög litlum mæli. Þegar umsókn er hafnað bendir nefndin að jafnaði á úrræði, sem gætu orðið að liði, svo sem að þörf sé á frekari greiningarvinnu, að meðferðar eða endurhæfingar sé þörf eða t.d. að dagdvöl eða tímabundnar dvalir til endurhæfingar eða hvíldar gæti stutt fólk í áframhaldandi sjálfstæðri búsetu eða loks, að aukin heimahjúkrun eða félagsþjónusta ætti við. Mikilvægt er að skoða vandlega svör nefndarinnar, því í þeim geta legið mikilvæg tækifæri fyrir einstaklinginn.

Hvert ber að leita?

Umsóknareyðublöð má fá bæði á skrifstofu Færni- og heilsufarsnefndar að Þönglabakka 1 í Reykjavík og á vef landlæknis – www.landlaeknir.is . Sé umsókn sótt á vefinn þarf að prenta hana út og svo skila henni útfylltri á skrifstofu nefndarinnar. Ekki er tekið á móti rafrænum umsóknum.

Hverjir geta sótt?

Umsækjandinn er ævinlega sá, sem málið varðar. Því þarf undirskrift umsækjanda nema hann sé sannanlega ófær um slíka undirskrift. Hins vegar geta ýmsir aðilar aðstoðað umsækjanda við frágang umsóknarinnar og upplýsingagjöf. Svo sem aðstandendur þeirra, heimilislæknar, öldrunarlæknar, sjúkrahús og/eða stofnanir, sem umsækjandi hefur dvalist á. Umsækjandi þarf þó ávallt sjálfur að hafa samþykkt að umsókn yrði send því ætlast er til, að verði matið jákvætt sé umsækjandi reiðubúinn til þess að þiggja það úrræði, sem sótt hefur verið um en í umsókninni þarf greina hvort sótt er um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða dvalarheimili eða tímabundna dvöl til hvíldar eða endurhæfingar. Aðstandendum og/eða umsækjanda er ráðlagt að leita aðstoðar heimilislæknis, öldrunarlæknis, sjúkrahúss eða stofnunar, sem umsækjandi hefur dvalist á þegar unnið er við frágang umsóknar.

 

Hvað metur nefndin?

Færni- og heilsufarsmatsnefndin leggur, eins og nafnið bendir til, áherslu á margt annað en einvörðungu líkamlega heilsu þegar metin er þörf umsækjanda og hvers konar úrræði henti best. Líkamlegt ástand og atgervi er metið sem og andlegt og geðrænt ástand og er það mat oft hvað erfiðast vegna þess að það getur hæglega breytst og breytst mikið frá einni tíð til annarar. Þá er einnig tekið fullt tillit til hrörnunarsjúkdóma, tauga- og heilasjúkdóma, sem og aðbúnaðar og aðhlynningar. Áhersla skal á það lögð, að þegar um er að ræða dvöl á hjúkrunarheimili þá er við það miðað að þeir allra veikustu gangi þar fyrir – þeir þar sem heimahjúkrun og heimahlynning kemur ekki lengur að gagni. Sú breyting hefur orðið í áranna rás að stöðugt veikara fólk er lagt inn á hjúkrunarheimili og því er ekki lengur rými þar fyrir fólk, sem ekki þarf á jafn mikilli umönnun að halda og hjúkrunarheimilum er ætlað að veita.

Hvað á að biðja um?

Þegar gengið er frá umsókn og valið það rými, sem eftir er sóst, þarf því að hafa vel í huga að hjúkrunarheimilisvistun er aðeins ætluð veikasta fólkinu – þ.e. því fólki sem þarf á mikilli læknishjálp og hjúkrunarþjónustu að halda og ekki getur nýtt sér þau önnur úrræði fyrir veika aldraða, sem í boði eru. Þeir, sem eru í minni þörf, ættu fremur að skoða möguleika á dvöl á dvalarheimili, eða til tímabundinnar endurhæfingarl eða hvíldar. Vandinn er hins vegar sá, að dvalarheimilisúrræðum fer stöðugt fækkandi á höfuðborgarsvæðinu. Sambærilegt úrræði er þjónustuíbúð með raunverulegri þjónustu á vegum sveitarfélags. Aðeins Reykjavíkurborg býður upp á slíkt úrræði, sem hentar afar vel þeim, sem líða fyrir einmanakennde, viðvarandi depurð eða kvíðaröskun. Sá hængur er á, að slík úrræði eru tekjutengd en ekki þarfatengd. I

1450 rými.

Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 1450 talsins. Þeim er ekki aðeins ætlað að rýma þá, sem veikastir eru meðal eldra fólks heldur er þeim einnig ætlað að taka á móti yngra fólki sem hlotið hefur mat um hjúkrunarheimilisþörf. Þá er einnig verið að fækka rýmum í hverju herbergi hjúkrunarheimila. Í sumum tilvikum hafa tveir eða fleiri dvalið í hverju herbergi en nú er þess krafist að um sé hvarvetna að ræða einbýli. Hjúkrunarrýmunum fækkar því óhjákvæmilega í kjölfar þeirra breytinga. Þá hefur einnig kreppt að sjúkum öldruðum með öðrum hætti – t.d. með lokun skammtímavistunar á líknardeild á Landakoti þar sem árlega höfðu dvöl um 100 sjúkir aldraðir í dánarferli. Sá hópur bætist nú við þá, sem njóta þurfa dvalar á hjúkrunarheimilum. Biðlisti eftir hjúkrunarheimilum hefur því lengst á höfuðborgarsvæðinu. Þar bíða nú um 160 manns eftir dvöl – fólk, sem fengið hefur mat Færni- og heilsufarsmatsnefndar um þörf á hjúkrunarheimilisinnritun en fær ekki að svo stöddu.

Tveir um hvert rými.

Færni- og heilsufarsmatsnefnd fær jafnóðum upplýsingar um öll rými, sem opnast á hjúkrunarheimilum jafnskjótt og þau losna og það sama gildir um dvalarheimilin. Nefndin fer þá yfir biðlistann sem og óskir fólksins um það hvaða heimili hver og einn helst kýs sér. Nefndin velur svo af listanum einhverja tvo einstaklinga og sendir upplýsingar um þá til viðkomandi heimilis. Stjórn og/eða forstöðumaður þess heimilis velur svo hvor umsækjandanna tveggja fær að njóta dvalarinnar.

Fáir kæra.

Séu umsækjendur eða aðstandendur óánægðir með úrskurð Færni- og vistunarmatsnefndar og telji þeir sig hafa haldbær rök fyrir þeirri óánægju er unnt að kæra matið til Velferðarráðuneytisins. Mjög fátítt er þó að slíkt hafi gerst enda leggur nefndin sig fram um að starfa sem réttast að matinu og í fullu samræmi við vinnureglur um hvernig að því skuli staðið en þar er stuðst við alþjóðleg viðmið. Í úrskurði sínum lætur nefndin þess jafnan getið hvað hafi valdið því ef ekki hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, sem umsækjendur eða aðstandendur óska helst eftir. Bendir nefndin þá gjarna á úrræði eða ýtarlegri upplýsingar, sem að gagni gætu komið. Telji umsækjendur eða fagaðilar, sem styðja umsækjanda í umsóknarferlinu, eftir á að hyggja, að upplýsingum hafi í einhverju verið ábótavant og hafi þannig leitt til neikvæðrar niðurstöðu, þá er skynsamlegast að senda inn viðbótarupplýsingar og óska eftir endurmati áður en leitað er til Velferðarráðuneytisi